Læknar kvarta yfir lítilli samvinnu við heilbrigðisyfirvöld

05.11.2012

Í nýrri grein í Læknablaðinu er fjallað um vankanta á greiðsluþátttöku sjúkratryggingaÍ nýlegri umfjöllun Morgunblaðsins er fjallað um ritstjórnargrein Gylfa Óskarssonar, sérfræðings í barnalækningum og barnahjartalækningum á Barnaspítala Hringsins, sem birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins. Þar vekur Gylfi máls á því að samvinna yfirvalda og lækna sé allt of lítil og að útlitið sé síður en svo glæsilegt fari áfram sem horfi.

Í greininni bendir Gylfi á það vandamál sem skortur á samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og lækna hafi í för með sér. Of lítið samráð sé haft við lækna þegar kemur að ákvarðanatöku um lyfjamál og þau séu á góðri leið með að lenda í „öngstræti miðstýringar og óhagræðis,“ að mati Gylfa.

Að mati Gylfa er ástandið einna verst þegar kemur að lyfjum fyrir börn þar sem brotalamir séu víða í kerfinu til óþæginda og aukins kostnaðar sem kann í verstu tilfellum að ógna öryggi sjúklinga líkt og Gylfi bendir á.

 

Reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga um margt ábótavant

Árið 2010 gaf þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, út reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við lyfjakaup og í kjölfarið gáfu svo Sjúkratryggingar Íslands út vinnureglur fyrir lyfjaskírteini sem síðan hafa tekið miklum breytingum. Að mati Gylfa ber reglugerðin og vinnureglur SÍ íslenskri stjórnsýslu ekki fagurt vitni. Í því samhengi nefnir hann að ekki hafi verið leitast við að hafa samráð við lækna, ákvarðanir séu ekki studdar faglegum rökum og ákvarðanataka og umfjöllun um hana ógegnsæ.

Auk þess hafi því ekki verið sinnt að kanna hugsanleg áhrif reglugerðarinnar á störf lækna og að þessir miðstýringartilburðir séu ekki til þess fallnir að draga úr lyfjakostnaði eða bæta lyfjameðferð.

Gylfi skorar á velferðarráðuneyti, SÍ og Embætti landlæknis að hefja tafarlaust endurskoðun á kerfinu í samvinnu við samtök lækna, ekki sé boðlegt að núverandi kerfi geti bitnað á lyfjaöryggi barna.

 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.