Læknar og lyfjafyrirtæki

04.12.2006
Í leiðara Morgunblaðsins í gær, föstudag, er sagt orðið tímabært og nauðsynlegt að læknar skeri á öll hagsmunatengsl við lyfjafyrirtæki. Samskipti lækna og lyfjafyrirtækja eru vandmeðfarin en sú leið sem Morgunblaðið leggur til er með öllu óraunsæ og sýnir í engu skilning á hversu mikilvægt er að eðlilegt samband sé á milli lyfjaframleiðenda og lækna. Lengi vel hafa verið í gildi samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja en enn frekar var hnykkt á þessum samskiptareglum með samningi milli samtaka framleiðenda frumlyfja og Læknafélags Íslands sem undirritaður var 29. september s.l. Samningurinn og samskiptareglurnar eru aðgengilegar á vef Læknafélagsins og vef Frumtaka, www.frumtok.is

Nauðsyn þess að lyfjafyrirtæki hafi tækifæri til samskipta við lækna er augljós. Það er í því ljósi sem samkomulag um hvernig samskiptum skuli háttað er gert. Ábyrg og siðferðileg samskipti við heilbrigðisstarfsfólk ráða úrslitum varðandi það markmið að hjálpa sjúklingum og að þróa og bæta meðferð. Samskiptin verða líka að virða væntingar samfélagsin s og tryggja sjálfstæði beggja aðila í störfum þeirra. Mikilvægur þáttur í þessu starfi er að sjá til þess að heilbrigðisstarfsfólk hafi sem nýjastar og réttastar upplýsingar um lyf. Árangursrík markaðssetning lyfja tryggir aðgengi sjúklinga að þeim meðferðarúrræðum sem þeir þarfnast og rétta notkun lyfjanna. Árangursrík samskipti lyfjafyrirtækja við heilbrigðisstarfsfólk gera því kleift að: 
  • upplýsa heilbrigðisstarfsfólk um ávinning og áhættu við notkun lyfja 
  • koma á framfæri niðurstöðum rannsókna og öðrum upplýsingum sem hafa vísinda- og fræðslugildi 
  • styðja við bakið á rannsóknum og kennslu í læknavísindum, og 
  • fá endurgjöf og ábendingar varðandi lyfin frá sérfræðingum í læknastétt.

Þetta er í hnotskurn það sem skiptir máli í samskiptum lyfjafyrirtækja og lækna. Mikilvægt er að Morgunblaðið, líkt og allur almenningur, hafi skilning á mikilvægi þessara samskipta. Ekki síður er mikilvægt að aðilar samkomulags lækna og lyfjafyrirtækja virði í einu og öllu það samkomulag sem í gildi er og starfi samkvæmt þeim anda sem samkomulagið byggir á.

Jakob Falur Garðarsson.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.