Langlífi eykst samfara auknum framlögum til heilbrigðisþjónustu

08.10.2010
Bandaríkjamenn lifa skemur en íbúar margra iðnríkja og er þar lélegu heilbrigðiskerfi um að kenna fremur en offitu, reykingum, morðum eða öðru. Langlífi eykst í iðnríkjum þar sem allir njóta heilbrigðistrygginga, ólíkt Bandaríkjamönnum.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem framkvæmd var af vísindamönnum við Kólumbía-háskóla í New York og sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins í vikunni.

Í fréttinni segir að bornar hafi verið saman lífslíkur í Bandaríkjunum og 12 iðnríkjum, þeirra á meðal Ástralíu, Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð. Í öllum þessum löndum njóta íbúar almennrar heilbrigðistryggingar, en um 15 prósent Bandaríkjamanna hafa ekki slíka tryggingu.

Fram kemur að í viðmiðunarlöndum hafi framlög til heilbrigðisþjónustu aukist á árunum frá 1975 til 2005 og langlífi aukist því samfara. Annað sé uppi á teningnum í Bandaríkjunum, þar hafi framlög til heilbrigðisþjónustu aukist gríðarlega á þessu tímabili, en langlífi ekki aukist eins mikið og ætla hafi mátt.

Bandaríkin hafi dregist aftur úr öðrum löndum hvað varði langlífi. Þannig hafi Bandaríkin árið 1950 verið í fimmta sæti helstu iðnríkja í samanburði á lífslíkum kvenna við fæðingu. Í dag væru þau í 46. sæti og í 49. sæti séu bæði kynin tekin með.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.