Lyfjaframleiðendur upplýsa um öll tengsl við starfsfólk heilbrigðisstétta

13.03.2015

Um síðustu áramót gekk í gildi viðbót við siðareglur Samtaka evrópskra frumlyfjaframleiðenda (EFPIA) sem kveður á um það að birta opinberlega allar upplýsingar um samskipti og tengsl lyfjaframleiðenda við heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingasamtök. Reglurnar tóku gildi á sama tíma hér á landi.

Með þessu vilja lyfjafyrirtækin auka gegnsæi í lyfjaiðnaðinum í heild sinni og leggja sitt af mörkum til að draga úr tortryggni og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Reglurnar voru settar að frumkvæði lyfjaframleiðenda, m.a. vegna þess mikilvægis sem fyrirtækin leggja á gegnsæi og það óskoraða traust sem sjúklingar verða að geta borið til heilbrigðiskerfisins.

 

Reglurnar hafa tekið gildi hér á landi

Reglurnar sem gengu í gildi um áramótin koma til viðbótar við samning sem Frumtök og fleiri aðilar gerðu við Læknafélag Íslands og undirrtitaður var á Læknadögum 2013. Í honum er m.a. kveðið á um framlög og styrki lyfjafyrirtækjanna til heilbrigðisþjónustu eða rannsókna, auk þess sem hann fjallar um þóknanir fyrir þjónustu og kostun og gjafir til fagfólks í heilbrigðistétt. Reglur eru skýrar um námsferðir heilbrigðisstarfsfólks sem lyfjafyrirtæki styrkja, og skýrt er kveðið á um samskipti lyfjafyrirtækja og lækna, fræðslu um ný lyf og meðferð þeirra og fleiri atriði. Í samningnum, og nánar í siðareglunum, er til að mynda skýrt tekið fram að óheimilt er að greiða ferðakostnað maka. Ennfremur er skylt að taka sérstaklega fram í kynningarbréfum og upphafi funda og ráðstefna þegar lyfjafyrirtæki styrkja fundi, námskeið eða málþing, sem haldin eru á vegum lækna eða með þátttöku þeirra.

 

Alls staðar vel tekið

Frumtök hafa kynnt reglurnar fyrir forsvarsfólki Læknafélags Íslands og Landspítala, m.a. læknaráði og krabbameinslæknum spítalans, og hefur þeim hvarvetna verið tekið vel. Reglunum er enda fyrst og fremst ætlað að vernda mikilvæg samskipti og varðveita og auka gegnsæi og traust milli þessara aðila. Mikilvægt er að almenningur geti treyst því að samstarf þeirra hafi ekki áhrif á klínískar ákvarðanir og að heilbrigðisstarfsfólk ráðleggi, veiti eða kaupi viðeigandi meðferð og þjónustu sem byggist eingöngu á klínískum niðurstöðum og reynslu.

 

Birting gagnanna

Birting upplýsinga frá lyfjafyrirtækjunum hér á landi sem eiga aðild að Frumtökum verður með þeim hætti að hvert og eitt aðildarfélag heldur utan um sín samskipti við heilbrigðisstarfsfólk og birtir í samantekt í ársskýrslu sinni. Frumtök munu bjóða uppá sérstakt vefsvæði á heimasíðu sinni þar sem aðildarfélögunum býðst að birta upplýsingarnar. Fyrsta birting verður samantekt samskipta á þessu ári sem birtar verða í árskýrslu fyrirtækjanna fyrir árið 2015.

 

Aflaðu þér frekari upplýsinga

  • Viðaukinn við siðareglurnar sem tók gildi um áramótin er hér.
  • Reglur EFPIA og Frumtaka frá 2012 í heild sem fjalla um samskipti lyfjafyrirtækja og sjúklingasamtaka, er hér.
  • Reglur EFPIA og Frumtaka frá 2014 um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk
  • og kynningu lyfseðilsskyldra lyfja, eru hér.
  • Stutt kynningarmyndband EFPIA er að finna hér.
  • Frétt frá 2013, þegar samningur um siðareglur var undirritaður milli Frumtaka, LÍ, FA og SVÞ, má lesa hér.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.