Lyfjafyrirtæki birta upplýsingar um samskipti sín við einstaklinga og stofnanir í heilbrigðisgeiranum

29.06.2016

Frumlyfjafyrirtæki birtu í dag fjárhagsupplýsingar um samskipti sín við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir á Íslandi fyrir árið 2015. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkar upplýsingar eru birtar opinberlega og er það gert í samræmi við nýjar siðareglur EFPIA, Evrópusamtaka lyfjaframleiðenda, sem tóku gildi á síðasta ári. Í siðareglunum er umgjörð um náms- og ráðstefnuferðir meðal annars gerð skýr og gagnsæ, svo tryggja megi áframhaldandi og nauðsynleg samskipti lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks, einkum lækna.

Alls birtu 16 lyfjafyrirtæki fjárhagsupplýsingar um samskipti sín við einstaklinga og stofnanir í heilbrigðisgeiranum hér á landi og nema heildargreiðslur þeirra 139 milljónum íslenskra króna. Stærstan hluta upphæðarinnar má rekja til verkefna sem tengjast klínískum lyfjarannsóknum og styrkt eru um 96 milljónir króna. Aðrar greiðslur eru t.d. framlög og styrkir til heilbrigðisstofnana, kostnaður vegna ferða og skráningargjalda á ráðstefnur til símenntunar heilbrigðisstarfsfólks, auk þóknunar fyrir fræðslu, fyrirlestra og sérfræðiráðgjöf.

„Við höfum átt mjög gott samstarf í gegnum tíðina sem hefur skilað sér í bættri heilbrigðisþjónustu og betri meðferðum fyrir sjúklinga. Það er eðlilegt að lyfjafyrirtækin greiði fyrir tíma og vinnu sérfræðinga og styðji einnig símenntun þeirra. Krafa samfélagsins um aukið gagnsæi er í takt við tímann og við tökum með þessu skrefi þátt í því verkefni EFPIA að opinbera fjárhagslegar upplýsingar svo að almenningur geti treyst því að samstarfið hafi ekki áhrif á klínískar ákvarðanir,segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Birting upplýsinganna er sameiginlegt verkefni frumlyfjaframleiðenda í Evrópu. Reglurnar eru bindandi fyrir öll aðildarfyrirtæki Frumtaka, sem birtu upplýsingarnar opinberlega á vef Frumtaka í dag.

Læknafélag Íslands hefur eins og sambærileg samtök lækna í öðrum Evrópulöndum tekið þátt í undirbúningi verkefnisins. Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands: „Læknar hafa í langan tíma átt farsælt og gott samstarf við lyfjafyrirtæki um rannsóknir og fræðslu. Sem betur fer er hröð þróun og miklar framfarir í læknavísindunum og stöðug árvekni lækna er forsenda þess að þeir geti hagnýtt sér nýjustu tækni og meðferðir. Læknar leggja sitt lóð á vogarskálarnar með fræðslu-, rannsóknar- og vísindastörfum og njóta líka góðs af samstarfinu með nýjum tækifærum til bættrar þjónustu við sjúklinga sína. Það er framfaraskref og í samræmi við tíðarandann að fjárhagsleg tengsl þessa samstarfs séu gerð aðgengileg“.

 

 

Skýrslur lyfjafyrirtækja er að finna hér:

http://www.frumtok.is/sidareglur/dc

 

Allar frekari upplýsingar veitir:

Jakob Falur Garðarsson,
framkvæmdastjóri Frumtaka
farsími: 862 4272
sími:       588 8955

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.