Lyfjakostnaður einstaklinga minnkar

28.11.2014

LyfjaglasSamkvæmt því sem ríkisstjórnin leggur til við breytingar á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 milli 1. og 2. umræðu er lækkun á þátttöku einstaklinga í lyfjakostnaði um 5% með 150 m.kr. aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir að lyfjakostnaður sjúklinga lækki með lækkun á áætluðu efra þrepi virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem boðuð er hækkun ráðstöfunartekna og lækkun vísitölu neysluverðs með auknum framlögum til heilbrigðis- og menntamála.

Á haustþingi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem haldið var á Höfn í Hornafirði í síðustu viku kom fram í ræðu forsætisráðherra, Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, að boðaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu muni leiða til verðlækkunar á flestum vörum, ekki síst á „nauðsynlegum lyfjum“ eins og það var orðað og forsætisráðherra tilgreindi sérstaklega.

„Þegar allt er talið á matvælaverð ekki að hækka vegna breytinganna nema í mesta lagi um 1,4% og helst ekki neitt. Flestar vörur munu lækka í verði og nauðsynleg lyf alveg sérstaklega. Heildaráhrif breytinganna þýða að neysluskattar lækka verulega og það sem er mikilvægast, áhrifin verða mest hjá þeim tekjulægstu,“ sagði Sigmundur m.a. í ræðu sinni.

Lyf hafa hækkað minnst

Það er ástæða til að vona að boðaðar breytingar ríkisstjórnarinnar gangi eftir landsmönnum til hagsbóta. Hvað almennt lyfjaverð á Íslandi áhrærir er þó vert að halda því til haga að hér á landi hefur verð á lyfjum hækkað minnst allra algengustu vara og þjónustu sl. 6 ár. Það sýnir yfirlit sem Vísbending tók saman og birti 22. september. Yfirlitið sýnir verðþróun frá ágúst 2008 til september 2014 og hækkuðu lyf um 12% á sama tíma og verðbólga nam 35 prósentum á tímabilinu.

Erum samt Evrópumeistarar í skattlagningu á lyf

Enda þótt Ísland sé Evrópumeistari í skattlagningu lyfja (sjá yfirlit neðst á þessari síðu) er lyfjaverð á Íslandi hagstætt í samanburði við nágrannalöndin. Sem dæmi má nefna að verð svokallaðra S-merktra lyfja er lægst hér á landi af Norðurlöndunum.

Hægt að lækka lyfjaverð meira

Stjórnvöld geta lækkað verð á lyfjum með þeirri einföldu breytingu að stilla virðisaukaskatti á lyf til samræmis við það sem algengast er í nágrannalöndunum. Sem stendur er skattur á lyfseðilsskyld lyf hvergi hærri í Evrópu en á Íslandi.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.