
Á læknadögum 2010 flutti Engilbert Sigurðsson, geðlæknir á Landspítala og dósent við HÍ, erindi um þátttöku lækna í hagræðingu í heilbrigðisþjónustu. Í nýjasta tölublaði
Læknablaðsins er grein eftir Engilbert, sem m.a. byggir á erindinu frá Læknadögum, þar sem hann veltir fyrir sér hlutverki lækna í hagræðingu innan heilbrigðiskerfsins. Grein Engilberts í heild sinni er að finna
hér en á þessum vettvangi er vert að vekja athygli á nokkru af því sem Engilbert fjallar um:
„Á geðsviði Landspítala nemur launakostnaður nú um 93% heildarkostnaðar. Lyf og rannsóknir vega samanlagt aðeins 3% af kostnaði sviðsins. Því er ljóst að ef spara á um tugi prósenta á Landspítala á þremur til fjórum árum eins og lagt hefur verið upp með frá 2008-2012 verður það ekki gert nema með sparnaði í launakostnaði og fækkun starfsfólks. Einhver gæti talið að þar væri af nógu að taka þegar löngu velmegunarskeiði er nýlokið hér á landi. Sú er ekki raunin. Allan síðasta áratug var legurýmum fækkað jafnt og þétt á geðsviði. Þjónusta dag- og göngudeilda hefur þó verið efld og aukin á sama tíma. Hins vegar eiga þeir sem veikastir eru erfiðara með að nýta sér slíka þjónustu, innlagnir þurfa oft að vera endurtekið hluti af meðferðaráætlun þeirra. Draga má úr innlagnarþörf með öflugum samfélagsteymum og búsetuúrræðum sem veita þjónustu í samræmi við þarfir.“
„Lyfjakostnaður geðsviðs var 58,9 milljónir árið 2009 (tæp 2% af heildarkostnaði sviðsins). Hann lækkaði að krónutölu um 17% milli ára. Með verðbólguleiðréttingu er þar um tæplega 30% sparnað að ræða. Þessi góði árangur hefur náðst með minni notkun dýrra lyfja, meðal annars 41% minna af dýrasta lyfinu sem leiddi til 22% minni kostnaðar við innkaup á því, en einnig hefur það sparað talsvert fyrir geðsviðið að hætta að hafa dagsjúklinga á bráðamóttökudeildum.“