Lyfjaverð er fimmtungi lægra en 2014

06.09.2017

Samfara styrkingu krónunnar hefur verð lyfja stöðugt lækkað síðustu ár. Heildsöluverð tíu veltumestu lyfjanna er nú fimmtungi lægra en í september 2014. Það ár lækkaði verð lyfja um 10,1% á milli ára og hefur lækkað á hverju ári síðan. Í ár nemur lækkun frá fyrra ári 6,1%. Munurinn er svo enn meiri ef horft er til lengra tímabils. Þannig hefur heildsöluverð lyfja lækkað um 39,7% frá 2009.

„Hér á landi er fastmótað opinbert regluverk um verðlagningu lyfja þar sem miðað er við lægstu verð á Norðurlöndum og gengisþróun. Styrkingar krónunnar hefur víða orðið vart í vöruverði en hvergi eru áhrifin jafnaugljós og í lyfjaverði þar sem breytingar á gengi skila sér um hver einustu mánaðamót,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Lyfjaverð er ákveðið af lyfjagreiðslunefnd sem í hverjum mánuði gefur út innflutningsgengi sem notað er við verðútreikning. Gengið er meðaltal gengisþróunarinnar mánuðinn á undan. Álagning í smásölu getur verið breytileg, en þar ákveður lyfjagreiðslunefnd einnig leyfilegt hámarksverð, líkt og í heildsölu.

„Við höfum samt velt fyrir okkur hvort ekki mætti bæta þetta kerfi enn frekar og draga úr sveiflum sem komið geta sér illa, svo sem með því að miða fremur við meðalgengi sex mánaða í senn, í stað eins mánaðar,“ segir Jakob Falur. Frumtök komi til með að taka þær hugmyndir upp í viðræðum við stjórnvöld.

Líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan hefur verð á lyfjum bara hækkað tvisvar á milli ára frá hruni. Í mælingunni er horft til heildsöluverðs tíu veltumestu lyfjanna, samkvæmt samantekt Lyfjastofnunar, frá septembermánuði til septembermánaðar ár hvert. Hækkanir voru 1,3% árið 2011 og 6,1% 2013. Önnur ár lækkar verðið um á milli 14,5%, þegar lækkunin var mest 2010 og 5,5% þegar hún var minnst 2015.

Hér að neðan má líka sjá í töflu verðþróun hvers lyfjanna fyrir sig auk meðalverðs þeirra. Þar sést að meðalheildsöluverð tíu veltumestu lyfjanna hefur farið úr rúmum 94 þúsundum króna í september 2009 í rétt tæpar 57 þúsund krónur á þessu ári.

Jakob Falur segir ástæðu til þess að fagna verðþróun síðustu ára og þeirri efnahagsþróun sem stuðlað hafi að styrkingu krónunnar, enda sé gott aðgengi að lyfjum mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónust­unnar og máli skipti að almenningur hafi á því staðfestingu að lyfjaverð lækki um leið og krónan styrkist. „Um mikilvægi lyfja þegar kemur að því að stuðla að auknu heilbrigði þarf svo náttúrlega ekki að fjölyrða, eða um þjóðhagslegan ávinning af því að tryggja bætta heilsu fólks, bæði hvað varðar vinnugetu og lægri kostnað í heilbrigðiskerfinu.“ 

Hámarks heildsöluverð 10 veltumestu* lyfjanna:

Heiti sep.17 sep.16 sep.15 sep.14 sep.13 sep.12 sep.11 sep.10 sep.09
Helixate NexGen 250 ae/hgl 17.682 kr. 19.139 kr. 20.891 kr. 22.579 kr. 26.881 kr. 26.170 kr. 26.856 kr. 31.350 kr. 32.770 kr.
Privigen 25 ml** 13.574 kr. 14.692 kr. 15.653 kr. 16.918 kr. 24.165 kr. 23.526 kr. 23.689 kr. 22.771 kr. 22.771 kr.
MabThera 100 mg 58.201 kr. 60.833 kr. 67.111 kr. 72.402 kr. 81.061 kr. 76.139 kr. 84.185 kr. 79.683 kr. 96.820 kr.
Herceptin 150 mg/hgl 68.305 kr. 72.182 kr. 79.631 kr. 84.517 kr. 96.823 kr. 90.944 kr. 100.555 kr. 95.176 kr. 110.866 kr.
Tysabri 300 mg/hgl 171.433 kr. 184.135 kr. 203.766 kr. 222.202 kr. 237.745 kr. 222.846 kr. 246.698 kr. 242.094 kr. 279.824 kr.
Enbrel 25 mg áfyllingarpakki 54.420 kr. 58.437 kr. 64.468 kr. 68.347 kr. 73.962 kr. 69.471 kr. 76.813 kr. 72.694 kr. 92.285 kr.
Remicade 100 mg pk. 61.233 kr. 65.753 kr. 72.538 kr. 76.903 kr. 85.025 kr. 79.862 kr. 88.278 kr. 86.817 kr. 102.124 kr.
Humira stungulyf 40 mg/pennar 116.354 kr. 122.186 kr. 134.795 kr. 133.965 kr. 151.023 kr. 141.853 kr. 156.844 kr. 162.281 kr. 192.296 kr.
Concerta 18 mg töfluglas 4.806 kr. 5.202 kr. 5.715 kr. 6.177 kr. 6.902 kr. 7.122 kr. 7.172 kr. 7.112 kr. 7.436 kr.
Seretide Diskus 300 mcg/sk 3.645 kr. 4.075 kr. 7.012 kr. 6.537 kr. 6.543 kr. 6.781 kr. 6.723 kr. 7.389 kr. 7.534 kr.
Meðalverð 56.965 kr. 60.663 kr. 67.158 kr. 71.055 kr. 79.013 kr. 74.471 kr. 81.781 kr. 80.737 kr. 94.473 kr.
*Skv. síðustu samantekt Lyfjastofnunar. **Var ekki til 2009, verð frá 2010 notað.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.