Lyfjaverð á villigötum

07.07.2006
TEKIST hefur að ná markmiðum um að verð á frumlyfjum sé sambærilegt við verð á sömu lyfjum á Norðurlöndum. Það kom fram í skriflegu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í febrúar síðastliðnum. Þessi markmið náðust með samkomulagi um lækkun á lyfjaverði í heildsölu sem gert var í júlí 2004 milli heilbrigðisráðherra og lyfjainnflytjenda.
Í svarinu kom m.a. fram að lyfjaverð í heildsölu hefði lækkað um 17% á því rúma eina og hálfa ári frá því að samkomulagið var undirritað, sem samsvaraði 1,7 milljörðum króna á heildsöluverði á ársgrundvelli og smásöluverðmæti um 14% eða 2,4 milljarða króna.

Þetta er umtalsverður árangur og í svari heilbrigðisráðherra taldi hann ástæðu til að hrósa lyfjainnflytjendum fyrir framlag sitt í þessum efnum.

Því vekur það furðu að mörg hundruð prósenta munur er á verði á samheitalyfjum á Íslandi og í Danmörku. Má spyrja hverju það sætir að verð á samheitalyfjum, sem eru eftirhermulyf með sams konar virkni og frumlyf en mun ódýrari í framleiðslu, skuli vera allt að því jafnhátt og verð á samsvarandi frumlyfjum. Þessi staða er óviðunandi fyrir íslenska neytendur og skattgreiðendur.

Lyfjaverð er ákvarðað af lyfjagreiðslunefnd, sem er nefnd á vegum ríkisins. Hlutverk hennar er að ákvarða "hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum...í heildsölu og smásölu, sem eru með markaðsleyfi" og jafnframt að sjá til þess að verð á lyfjum hér á landi sé sambærilegt við verð á hinum Norðurlöndunum (sjá www.lgn.is). Þá fyrst fer lyf í sölu hér á landi að þessi nefnd hefur ákvarðað verð þess. Lyfjagreiðslunefnd verður að skýra hvers vegna samheitalyf eru allt að 5-600 prósentum dýrari á Íslandi en í Danmörku.

Það er því verk að vinna fyrir heilbrigðisyfirvöld að koma böndum á verð á samheitalyfjum. Þau hafa tækin til þess. Sú leið er mun nærtækari en fráleitar hugmyndir um að endurvekja Lyfjaverslunarstofnun á vegum ríkisins. Að sama skapi verða lyfjainnflytjendur og lyfjaframleiðendur að sjá til þess að samheitalyf séu á markaði hér á landi. Þá þurfa samkeppnisyfirvöld að skoða að hvaða leyti samþjöppun á lyfjamarkaði og minni samkeppni hefur haft áhrif á þjónustu við sjúklinga og hvers vegna verðlækkun á lyfjum hefur ekki skilað sér til neytenda, þrátt fyrr lækkað verð á lyfjum í heildsölu og lækkun á lyfjakostnaði ríkisins.

Höfundur er alþingismaður og varaformaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.