Lyfjaverslun ríkisins árið 2006

10.07.2006
Á síðastliðnum einum og hálfum áratug höfum við Íslendingar notið meira góðæris í efnahagslegu tilliti en nokkru sinni fyrr. Þennan góða árangur má ekki hvað síst rekja til þess að frelsi hefur verið innleitt inn í þær greinar atvinnulífsins sem áður bjuggu við ríkisafskipti. Það hefur verið full pólitísk samstaða um að stíga þessi skref meðal þeirra stjórnmálaflokka sem farið hafa með stjórn þjóðarskútunnar á þessu tímabili. Almenningur hefur notið þessara breytinga í ríkum mæli, enda hefur kaupmáttur launa aukist gríðarlega á þessu árabili eins og öllum er kunnugt og ekki er ágreiningur um. Fram að þessu hafa þær raddir því virkað hjáróma sem lagt hafa til að skrefið yrði stigið til baka og ríkið tæki á ný til við atvinnustarfsemi sem það hafði áður horfið frá. Í hugum flestra hafa hugmyndir í þessa veru þótt fráleitar og því vart svara verðar.
Nú ber hins vegar svo við að á undanförnum vikum hafa ítrekað komið fram tillögur um að ríkið fari aftur að höndla með lyf, en hið opinbera lét af þeirri starfsemi fyrir rúmum áratug. Að fyrra bragði hefðu menn afgreitt slíkar tillögur á sama hátt og aðrar í þessa veru. Þegar hins vegar tillögur í þessa átt heyrast frá forystufólki innan heilbrigðisþjónustunnar verður málið allt flóknara. Því hefur verið teflt fram sem rökum að verð á lyfjum sé allt of hátt á Íslandi og ekki sé nægjanlega mikil samkeppni milli fyrirtækjanna í þessari grein. Ríkisafskipti, með tilheyrandi afturhvarfi til fortíðar, sé töfralausnin.

Fyrir alla þá sem telja að ríkið eigi almennt ekki að stunda atvinnustarfsemi, hljóta tillögur í þessa átt að teljast vafasamar í meira lagi og fyrir þá sem þekkja betur til málaflokksins beinlínis fáránlegar. Staðreyndin er nefnilega sú að verslun með lyf er ein mjög fárra starfgreina sem býr við bein opinber verðlagsafskipti, þar sem hámarksverð lyfja er háð opinberri ákvörðun. Ríkið hefur þegar náð prýðis árangri við að ná niður lyfjaverði, sbr. samkomulag þess við heildsölufyrirtækin frá 2004 sem tryggir að verð á frumlyfjum í heildsölu verður hið sama og á hinum Norðurlöndunum í september nk. Verð á frumlyfjum er raunar þegar orðið lægra en í Danmörku. Aðkoma hins opinbera að verðlagningu lyfja er því meiri en í flestum öðrum greinum.

Í þess ljósi hafa tillögur um stofnun nýrrar Lyfjaverslunar ríkisins því á sér yfirbragð hins fullkomna fáránleika. Verða því allir þeir sem hafa meiri trú á frjálsu framtaki en ríkisafskiptum að koma í veg fyrir að tillögur þessar verði að veruleika.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.