Með lyfjum finnast lausnir

04.07.2014

Athyglisvert innlegg í umræðuna um lyfjanotkun og lyfjaverð er grein eftir Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi sendiherra, sem birtist í Fréttablaðinu 2. júlí síðastliðinn. Þar fjallar Kjartan um þann mikla ábata sem lyf og lyfjameðferð hefur fært þjóðinni.

Kjartan segir  ábatann mælast „í sparnaði á öðrum sviðum lækninga, í fjárhagslegum ávinningi af framlengingu á vinnu- og framfærslugetu fjölda fólks. Ábatinn mælist líka í linun þjáninga, í auknum lífsgæðum og í lengri og betri samveru með fjölskyldunni.”

Í greininni rifjar Kjartan meðal annars upp hvernig lyf komu í stað uppskurða við magasárum, aðferð sem var bæði dýr fyrir fyrir heilbrigðisþjónustuna og sjúklinginn. „Og hvað skyldi mörgum árum hafa verið bætt við lífið með lyfjum á sviði hjarta- og æðasjúkdóma” spyr hann. „Margir hafa haldið vinnu-og framfærsluþreki vegna þeirra, náð betri eigin hag, sparað þjóðfélaginu kostnað og notið lífsins lengur. “ Hann segir kjarna máls vera þann að kostnað af lyfjum eigi ekki og megi ekki meta án þess að líta á ábatann.

Frumtök hafa áður bent á að nokkuð virðist skorta á að stjórnvöld skilji mikilvægi þess að fjárfesting í nýjum lyfjum sé aukin og að langtímastefna sé mörkuð. Kjartan fjallar meðal annars um S-lyfin sem eru notuð til sérhæfðrar meðferðar
. „Þau eru vissulega dýr,” segir hann. „Það eru hins vegar þau sem ryðja brautina. Þau er nýjungar, frumkvöðlar á sínu sviði. Þau eru úrræði sem gagnast þegar annað dugar ekki. Með notkun þeirra finnast lausnir sem annars eru ekki til og verða ekki til. Ábatinn af notkun þeirra kemur stundum strax í ljós, en stundum seinna, því þekkingin, undirstaða árangurs, fæst með notkun þeirra.“

Fjárfesting í heilbrigðiskerfinu er mikilvæg og aðgengi að nýjum lyfjum er ekkert annað en fjárfesting í einu mikilvægasta verkfæri læknisins. Áframhaldandi framþróun á sviði lyfjavísinda mun skapa áður óþekkt gæði fyrir nýja sjúklingahópa og samfélagið í heild sinn. Það þýðir að því fyrr sem brugðist er við með nýjum og betri lyfjum, því meiri verður þjóðhagsleg hagkvæmni fjárfestingarinnar.

Aðeins með því að viðurkenna gagnsemi lyfjanna og brautryðjendahlutverk S-lyfjanna, meta ábatann en ekki bara krónutölur útgjaldanna, gerum við þjóðinni, fólkinu í landinu, rétt. Gróði okkar allra af aðgangi að lyfjum er mikill. Útgjöld blikna í því samhengi. Það á að láta samhengi hlutanna ráða við stefnumörkun.

 

Grein Kjartans Jóhannssonar má lesa hér

kjartan

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.