Mikil vinna að baki frumvarpi til nýrra lyfjalaga

16.11.2016

Frumvarp til nýrra lyfjalaga var á meðal þeirra mála sem ekki auðnaðist að klára á síðasta þingi áður en að kosningum kom í október. Skaði væri ef sú mikla vinna sem lögð hefur verið í frumvarpið færi forgörðum og full ástæða til að hvetja nýtt þing og nýja ríkisstjórn, þegar hún hefur verið mynduð, til að fylgja málinu áfram.

Líkt og fram kom í umsögn Frumtaka við nýju lögin hafði undirbúningur frumvarpsins að mestu verið til fyrirmyndar og hagsmunaaðilar fengið tækifæri til að koma að þeirri vinnu. Markmið frumvarpsins og þær breytingar sem boðaðar eru, eru almennt til bóta og til þess fallnar að skýra umgjörð lyfjamála á Íslandi og færa frekar til þess horfs sem er í nágrannalöndum Íslands.

Tryggja gæði heilbrigðisþjónustu

Í fyrstu grein frumvarpsins koma fram markmið laganna um að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær Evrópureglur.

„Við verslun með lyf skal það ætíð haft til hliðsjónar að lyfjadreifing er hluti heilbrigðisþjónustu og starfsmenn við dreifinguna skulu vinna með öðrum aðilum í heilbrigðisþjónustu að opinberum heilbrigðismarkmiðum hverju sinni. Það er jafnframt markmið með lögum þessum að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, auka fræðslu um lyfjanotkun, sporna við óhóflegri notkun og halda lyfjakostnaði í lágmarki,“ segir þar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra mælti í maí síðastliðnum fyrir frumvarpinu og þingsályktunartillögu um lyfjastefnu til ársins 2020. Hvort tveggja er afrakstur vinnu nefndar sem hann skipaði um málið í byrjun árs 2015.

Heildarendurskoðunar er þörf

Gildandi lyfjalögum, sem eru frá 1994, hefur verið breytt 43 sinnum, en á þeim hefur aldrei farið fram heildarendurskoðun eins og lagt var upp með í þessu frumvarpi. Ekki er þó vanþörf á, enda hefur margt breyst á þessum rúmu tuttugu árum. Breytingarnar sem lagðar eru til eru enda allverulegar, en meðal helstu nýmæla eru nýtt fyrirkomulag gagnagrunna, lyfjagreiðslunefnd er lögð niður og starfsemin færð til Lyfjastofnunar, verðlagning dýralyfja gefin frjáls og opnað fyrir heimild til að selja ákveðin lausasölulyf í almennri verslun, auk þess sem í frumvarpinu er eru ákvæði um eftirlit og þvingunarúrræði Lyfjastofnunar og viðurlög við brotum gegn ákvæðum laganna eru uppfærð. Þá er gerð sú eðlisbreyting frá fyrri lögum að í stað þess að lyfjaauglýsingar séu bannaðar, með ákveðnum undantekningum, þá eru þær heimilar samkvæmt nýju lögunum, en með ákveðnum takmörkunum þó.

Bæta þarf áætlanagerð

Þó svo að í umsögn Frumtaka frá því í sumar sé bent á að enn mætti frumvarpið á nokkrum sviðum, svo sem með því að skerpa á yfirlýstu markmiði laganna um að auka fræðslu um lyfjanotkun, þá liggur fyrir nokkuð ítarlega unnið plagg sem skýrir og bætir umgjörð lyfjamála hér á landi.

Síðustu ár hafa reglulega komið upp tilvik sem skýrast af brotalöm í opinberri áætlanagerð þegar kemur að úthlutun fjármuna sem ætlaðir eru til að standa undir kostnaði við ný lyf. Fjárheimildir til málaflokksins í fjárlögum eru þá uppurnar og umsóknir nýrra lyfja ekki afgreiddar.

Ætla má að ný umgjörð eftir heildarendurskoðun Lyfjalaga geri áætlanagerðina eitthvað auðveldari, sér í lagi ef tekið verður tillit til ábendinga Frumtaka um leiðir til að bæta upplýsingagjöf til heilbrigðisstofnana um ný og væntanleg lyf. Yrðu þar tekin skref í áttina að bættri þjónustu við sjúklinga.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.