MMR bólusetning veldur ekki einhverfu

23.05.2014

Lengi hefur verið deilt um hugsanleg tengsl milli bólusetningar í æsku og einhverfu og þverneita margir foreldrar, einkum erlendis, að láta bólusetja börn sín enda þótt með því sé tekin mikil áhætta. Á þá áhættu hefur m.a. Margrét Guðnadóttir veirufræðingur og fyrrverandi prófessor í sýklafræði bent ásamt sóttvarnalækni og fleirum. Ekki alls fyrir löngu áréttaði Margrét í viðtali að þeir sem ekki láta bólusetja börn sín séu ábyrgir fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Á Íslandi eru foreldrar almennt mjög jákvæðir gagnvart bólusetningum barna enda þótt hér sé farið að gæta ákveðinnar öfugþróunar í þeim efnum sem ástæða er til að hafa áhyggjur af samkvæmt skýrslu sóttvarnalæknis.

Ástæðulaus ótti

Í nýrri frétt Landlæknisembættisins segir m.a. „Af og til berast fréttir af skaðlegum afleiðingum bólusetninga sem ekki hafa við rök að styðjast en eru til þess fallnar að draga úr tiltrú almennings á bólusetningum. Þegar þeir sjúkdómar hverfa úr samfélaginu sem bólusettt er gegn er hætt við að fólk gleymi þeim afleiðingum sem sjúkdómarnir höfðu. Athyglin beinist þá að hugsanlegum aukaverkunum sem bólusetningar kunna að hafa. Allar ábendingar um hugsanlegar skaðlegar afleiðingar bólusetninga eru teknar alvarlega og sérstaklega kannaðar.“

Ekki eitt tilfelli fundist

Fram kemur í frétt embættisins að langtímarannsókn sem hófst árið 1982 á börnum sem bólusett voru á aldrinum 14-18 mánaða og 6 ára í Finnlandi og tók til þriggja milljóna skammta miðað við árslok 1996 hafi ekki leitt í ljós eitt einasta tilfelli af heilkenni einhverfu sem unnt væri að tengja bólusetningunum. Þá hafi bresk rannsókn sem tók til 498 tilfella af heilkenni einhverfu leitt í ljós stöðuga aukningu á heilkenninu frá árinu 1979, þ.e. löngu áður en bólusetning með MMR hófst árið 1998. Ekki hefði orðið vart aukningar á heilkenni einhverfu sem rekja hefði mátt til bólusetninganna eftir að þær hófust. Ennfremur tiltekur landlæknisembættið rannsóknir frá Danmörku sem tekið hefðu til allrar þjóðarinnar, sem sýnt hafi ótvírætt að MMR bólusetning orsakaði ekki einhverfu.

Fjöldi dauðsfalla vegna mislinga

Frumtök taka undir með Landlæknisembættinu að mislingar, rauðir hundar og hettusótt séu sjúkdómar sem geta haft alvarlegar afleiðingar. Fram kemur á vef embættisins að árið 1998 hafi 30 milljónir manna fengið mislinga og af þeim hafi tæplega 900 þúsund manns látist. Sem stendur má rekja um 10% allra dauðsfalla í þróunarlöndum til afleiðinga mislinga að sögn landlæknisembættisins.

 

„Eitt af hverjum 8000 börnum sem fær mislinga fær alvarlega heilabólgu sem leiðir til dauða. Rauðir hundar eru alvarlegir fyrir fóstur og eru afleiðingar þess sjúkdóms enn í minnum manna hér á landi en hann gat valdið heyrnarleysi, heilaskemmdum, hjartaþelsbólgum og augnskemmdum. Hettusótt getur líka valdið alvarlegum fylgikvillum eins og heilahimnubólgu, eistnabólgu, briskirtilsbólgu og heyrnaleysi.

Það er því mikilvægt að vernda börnin gegn þessum sjúkdómum. Bólusetningar eru einstakar að því leyti að þær vernda ekki barnið eingöngu heldur annað fólk líka því bólusett barn smitar ekki aðra,“ segir á vef embættisins.

Nánari upplýsingar

  • Frétt á vef Landlæknisembættisins í tilefni niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem greint er frá í ScienceDirect.
  • Viðtal á Bylgjunni 20. maí við Þórólf Guðnason yfirlækni á sóttvarnarsviði landlæknisembættisins um nýja rannsókn á tengslum bólusetninga og einhverfu.
  • Viðtal á Vísi.is 15. október 2013 við Margréti Guðnadóttur veirufræðing.
  • Upplýsingar um bólusetningar á vef landlækbnisembættisins.
  • Samstillt átak um bólusetningar nauðsynlegt að mati Frumtaka.
  • Bólusetningum eins til fjögurra ára barna ábótavant á íslandi.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.