Umræða um bólusetningar á villigötum

22.02.2013

Neikvæð umræða um gildi bólusetninga er ótrúlega lífseig miðað við hve afdráttarlaus  gögn um mikilvægi bólusetninga eru. Það er stundum látið að því liggja að bólusetningar séu beinlínis skaðlegar. Frekar mætti segja að slík umræða geti verið skaðleg á meðan aðeins annað sjónarhornið kemur fram.

 

Vefútgáfa tímaritsins Forbes fjallaði um það á dögunum hve mikilvægar bólusetningar barna eru og þann gríðarlega árangur sem hefur náðst í að útrýma hættulegum sjúkdómum. Það sem meira er þá sýnir svokallað „infograph“, eða upplýsingakort, grafíska hönnuðarins Leon Farrant á skilmerkilegan máta hve gríðarleg áhrif bólusetninga hafa.

 

Upplýsingakort Farrants sýnir hve margir veiktust af völdum ýmissa alvarlegra sjúkdóma fyrir bólusetningar og svo aftur hve margir veiktust samkvæmt gögnum sem safnað var 2007. Í raun má segja að verið sé að bera fyrri hluta 20. aldar saman við fyrri hluta 21. aldar.

 

Sjúkdómarnir sem um ræðir eru miklir skaðvaldar. Barnaveiki (Diphtheria) getur valdið dauða 5-10% þeirra sem veikjast en á meðal barna undir 5 ára aldri og fullorðinna yfir 40 ára getur dánartíðnin jafnvel orðið 20%. Í samveldisríkjum Bretlands er talið að allt að 200 þúsund tilfelli hafi verið greind laust fyrir síðustu aldamót.
Sjá Wikipedia.

 

Haemophilus influenzae er baktería sem getur valdið margskonar sjúkdómum, t.d. bráðri barkaloksbólgu sem getur verið lífshættuleg.

Lifrarbólga A (Hepatitis A) og Lifrarbólga B eru algengir sjúkdómar sem hægt er að bólusetja fyrir en bólusetning gegn þessum sjúkdómum hefur borið góðan árangur eins og upplýsingakort Farrants ber með sér.
Sjá Vísindavef

 

Mislingar (Measles) er mjög smitandi veirusjúkdómur sem tekist hefur að útrýma á Íslandi með bólusetningum en sjúkdómurinn getur valdið dauða, sérstaklega á svæðum þar sem heilsugæsla er slök eða á meðal sjúklinga sem eru vannærðir eða lifa á einhvern hátt með skert ónæmiskerfi.
Sjá Vísindavef.

 

Hettusótt (Mumps) er smitandi veirusýking sem byrjað var að bólusetja fyrir á Íslandi 1989. Þótt sýkingin sé yfirleitt hættulaus getur hún haft alvarlegar afleiðingar hjá unglingum og fullorðnum.
Sjá vef Landlæknisembættisins

 

Kíghósti (Pertussis) er talinn koma upp í allt að 40 milljón tilfellum á hverju ári en með bólusetningu hefur dregið mjög úr dauðsföllum af völdum sjúkdómsins. Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að þúsundir manna hafi látist á árunum 1930 til 1940 af völdum kíghósta.
Sjá Vísindavef

 

Pneumókokkar (Pneumococcal disease) geta valdið lífshættulegum sjúkdómum eins og heilahimnubólgu. Á Íslandi er reynt að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar en þannig má koma í veg fyrir 90% sjúkdómanna. Árlega greinast þó að meðaltali um 11 börn með pneumókokka á Íslandi.
Sjá upplýsingar á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Mænusótt (Polio) er smitsjúkdómur af völdum veirusýkingar sem getur ráðist á miðtaugakerfið en það getur valdið skaða á hreyfitaugum sem leiðir til lömunar. Sjá Wikipedia.


Rauðir hundar (Rubella og congenital rubella syndrome) er veirusjúkdómur sem getur herjað á fólk fram eftir öllum aldri. Sjá Vísindavef.

 

Bólusótt (Smallpox) er einn skelfilegasti veirusjúkdómur sem fyrirfinnst og talið er að 300-500 milljónir manna hafi látist af völdum sjúkdómsins á 20. öldinni. Dánartíðni var mjög há, eða hátt í 30% smitaðra, og urðu Íslendingar fyrir barðinu á sjúkdómnum þegar Stóra-bóla gekk yfir landið 1707-1709 en þá er talið að 16-18 þúsund manns hafi látist á landinu.

 

Stífkrampi (Tetanus) er sjúkdómur sem eingöngu er hægt að fyrirbyggja með vissu með bólusetningu.

 

Hlaupabóla (Varicella) er sjúkdómur sem flestir fá einhvern tímann á lífsleiðinni en í Bandaríkjunum hefur með bólusetningu tekist að draga úr smiti sem nemur 89%.

 

Þegar haft er í huga að farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema með bólusetningum er ljóst að mikilvægi þeirra er gríðarlegt, eins og fram kemur á upplýsingakorti Farrants.

 

Farrants infograph

 

Heimildir og meira lesefni:
http://www.forbes.com/sites/matthewherper/2013/02/19/a-graphic-that-drives-home-how-vaccines-have-changed-our-world/
http://www.forbes.com/sites/matthewherper/2013/02/19/a-graphic-that-drives-home-how-vaccines-have-changed-our-world/

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.