Norðmenn innleiða þrefalt fleiri ný krabbameinslyf

14.02.2017

Af 25 nýjum krabbameinslyfjum sem Evrópska lyfjamálastofnunin veitti markaðsleyfi frá 2013 og fram í mars 2016 hafa einungis 8 verið tekin í notkun hér á landi. Norðmenn hafa á sama tíma tekið þrefalt fleiri í notkun, eða 24. Að jafnaði tóku stóru Norðurlöndin fjögur, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland, í notkun 21 ný krabbameinslyf á tímabilinu.

„Eftir yfirlýsingar síðustu ríkisstjórnar og viðbótarframlög til lyfjakaupa á síðasta ári og samhljóm allra stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar um aukinn stuðning við heilbrigðiskerfið, eru vonbrigði að á þessu ári skuli komin upp nákvæmlega sama staða og síðustu ár, að ekki séu til staðar heimildir í fjárlögum til innleiðingar nýrra lyfja sem heilbrigðiskerfið kallar eftir,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, en Lyfjagreiðslunefnd hefur þegar á þessu ári hafnað skráningu á lyfi sem Landspítalinn kallar eftir.

Strax og fjárlög lágu fyrir bentu Frumtök á (hér og hér) að fjárframlög ríkisins til lyfjamála árið 2017 væru verulega vanáætluð og að kæmi ekki til auka aukafjárveitingar á árinu mætti leiða að því líkum að ekki yrðu innleidd ný lyf á árinu 2017. „Sú spá virðist því miður vera að ganga eftir og í raun borðliggjandi að fjárlagaliðurinn dugar engan veginn fyrir útgjöldum ársins sem nú þegar eru fyrirsjáanleg.“

Ný lyf þurfa að standast strangar kröfur og framleiðsluferli þeirra er langt. Notkun þeirra er heimiluð á grundvelli þess að þau gera meira gagn en lyfin sem fyrir eru, árangur af notkun þeirra er meiri og meðferð verður skilvirkari. Frumtök hafa nú, þriðja árið í röð, í tengslum við samantekt á tölulegum staðreyndum tengdum lyfjamálum, unnið greiningu á innleiðingu nýrra krabbameinslyfja. „Og enn kemur skýrt í ljós að við erum verulegir eftirbátar Norðurlandanna hvað varðar aðgengi að nýjum lyfjum. Að íslenskir læknar hafa ekki aðgang að sömu úrræðum og kollegar þeirra í nágrannalöndunum,“ segir Jakob.

Í samantektinni kemur meðal annars fram að hlutfall lyfjakostnaðar af útgjöldum hins opinbera til heilbrigðismála hafi að meðaltali verið um tíu prósent undanfarinn áratug. „Og þó kostnaðurinn hafi aukist sem hlutfall af útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála í hruninu hefur hann minnkað umtalsvert síðustu ár í takt við mikla styrkingu krónunnar,“ bendir Jakob á. Miðað við fjárlögin í ár kemur hlutfall lyfjakostnaðar til með að nema um 7,4% af útgjöldum til heilbrigðismála. „Umtalsverður sparnaður ríkisins í lyfjakaupum hefur því ekki verið nýttur til að innleiða ný lyf til jafns á við önnur Norðurlönd.“

Fjallað er um stöðuna í Fréttablaðinu í dag og haft eftir Óttarri Proppé heilbrigðisráðherra að staðan sé erfið vegna þess hve kostnaður vegna lyfjakaupa hafi farið mikið fram úr fjárlögum á síðasta ári. „Kostnaður af lyfjum er því miður vandamál og viðvarandi vandamál að upptaka nýrra lyfja verður dýrari og dýrari,“ er eftir honum haft.

Jakob Falur segir kúnstugt að bera fyrir sig vonda áætlanagerð. „Ef áætlanir gera ráð fyrir að Landspítalinn kaupi tíu þúsund lítra af mjólk á árinu, en um leið vitað að það magn dugar ekki nema fram á mitt ár, þá er náttúrlega kostnaðarsamt að bæta við því sem til þarf. Það er kostnaðarsamt að bæta við ef áætlunin er í molum,“ segir hann. Horfast þurfi í augu við stöðuna eins og hún sé.

„Og staðreyndin er sú að við erum eftirbátar nágrannalandanna. Þyki stjórnvöldum of kostnaðarsamt að vera á pari við þau lönd sem við höfum viljað bera okkur saman við þá þarf líka bara að koma fram og segja berum orðum að þau treysti sér ekki til að reka heilbrigðiskerfi á pari við það sem við viljum bera okkur saman við.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.