Ný hugsun í heilbrigðiskerfinu er nauðsynleg – slæmt aðgengi að nýjum lyfjum er óásættanlegt

29.05.2015

 

840600_pillsRéttur sjúklinga til að njóta fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á að veita hverju sinni er lögbundinn og stjórnarskrárvarin mannréttindi. Mannréttindi sjúklinga eru ekki fríðindi sem hægt er að neita þeim um eða skera niður. Ráðdeildarsemi, hversu velviljuð sem sú hugsunn kann að vera, getur ekki hnikað til þeim rétti sem sjúklingum er tryggður í stjórnarskrá og afleiddum lögum.

 

Að mati lögmanna sem Frumtök hafa leitað álits hjá, er þessi réttur ótvíræður. Sú staða sem uppi er er alvarleg, þegar veikum sjúklingum hér á landi standa ekki til boða lífsnauðsynleg lyf sem sjúklingar í nágrannalöndunum hafa aðgang að, t.d. við meðferð á lifrarbólgu C og krabbameinum. Og nú er svo komið að ekki fæst heimild fyrir nýjum lyfjum við alvarlegum sjúkdómum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin flokkar sem grundvallarlyf og ætti því að vera í notkun í öllum löndum. Á þessar staðreyndir hefur margoft verið bent á á undanförnum vikum, ekki síst af hálfu sérfræðilækna á Landspítala.

 

Nú síðast lýsti Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala og prófessor í lyflæknisfræði (nýrnalæknisfræði) við læknadeild Háskóla Íslands, þeirri skoðun sinni í sjónvarpsfréttum þann 24. maí, að sér virtist sem það jaðraði við hneyksli að ekki skuli vera hægt að taka ákvörðun um jafnalvarleg mál og forgagsröðun í læknismeðferðum alvarlega veikra sjúklinga hér á landi. Í því tilviki átti Runólfur við þá staðreynd að ekki er heimilt að veita sjúklingum með lifrarbólgu C þá nýju læknismeðferð sem búið er að innleiða annars staðar á Vesturlöndum og læknar sjúkdóminn. Runólfur sagði sér ekki kunnugt um aðra Vestræna þjóð sem bannaði lyfjameðferðina, að minnsta kosti án undantekninga. Það jaðraði við hneyksli að heimila ekki lyfjameðferð strax við svo alvarlegum sjúkdómi á Íslandi.

 

Sjúkratryggingar Íslands og lyfjagreiðslunefnd fylgja ekki fyrirmælum heilbrigðisráðherra

Þetta er staðan í dag, þrátt fyrir t.d. skýr fyrirmæli heilbrigðisráðherra frá því í apríl 2015 þar sem segir m.a. að forsenda innleiðingar á nýju sjúkrahúslyfi sé að lyfið sé þegar komið í notkun í einhverju samanburðarlandanna. Samkvæmt orðanna hljóðan nægir að eitthvert eitt samanburðarlandanna hafi tekið lyfið í notkun til að notkun þess sé heimiluð hér á landi af Sjúkratryggingum Íslands og lyfjagreiðslunefnd. Mörg dæmi eru um að lyf sem notuð eru í nágrannalöndum okkar eru ekki tekin til notkunar hér á landi og vísað til þess að fyrirsjáanleg notkun þeirra rúmist ekki innan fjárheimilda. Þrátt fyrir fyrirmæli ráðherra og gildandi lög og reglur hefur lítið þokast í þessum efnum. Það er alvarlegt mál og óásættanleg stjórnsýsla.

 

Runólfur benti réttilega á í áðurnefndu viðtali að hér á landi verður, eins og víðar, að hefjast handa um mótun heildstæðrar stefnu um það hvernig eigi að forgangsraða í þjónustu heilbrigðiskerfisins. Við mótun slíkrar stefnu verður að tryggja að brýnustu verkefnin hverju sinni séu framar í röðinni en önnur verkefni sem geta beðið tímabundið. Frumtök taka heilshugar undir þessi sjónarmið.

 

Þá taka Frumtök einnig undir það sjónarmið að ástæða þess hve illa gengur að innleiða ný og dýr lyf hér á landi sé tregða í opinbera ákvarðanaferlinu milli stofnana sem ekki virðast geta unnið nægilega vel saman. Þetta er enda meðal þess sem komist er að í ítarlegri skýrslu Gylfa Ólafssonar, heilsuhagfræðings og doktorsnema við Karolinska Institutet í Stokkhólmi, sem unnin var að beiðni Frumtaka á síðasta ári.

 

Frumtök hafa lagt mikla vinnu í að greina þann knýjandi vanda í heilbrigðiskerfinu sem Runólfur vísar til og er vel þekktur meðal allra fagaðila sem tengjast málaflokknum. Síst af öllum fer þó almenningur varhluta af stöðu mála eins og fjölmiðlar hafa gert ítarlega grein fyrir í fréttum og fréttaskýringum undanfarin misseri. Slíkar fréttir eru því miður orðnar allt of margar.

 

Kjarni vandans, sem leitt hefur til viðvarandi mannréttindabrota vegna skerts aðgengis sjúklinga að árangursríkum og nauðsynlegum sjúkrahúslyfjum, er þessi: Fjármálaráðuneytið gefur velferðarráðuneytinu ramma um fjármögnun lyfja. Landspítalinn vinnur ítarlegar áætlanir um nauðsynleg lyf, en kemst ítrekað að þeirri niðurstöðu að rammi fjármálaráðuneytisins sé of þröngur. Það er sömuleiðis endurtekin niðurstaða velferðarráðuneytisins. Fjármálaráðuneytið segir áætlanirnar hins vegar ekki nægjanlega vel gerðar. Afleiðingarnar eru þær sem blasa við landsmönnum en svo virðist sem upp sé komin „störukeppni“ þar sem allir segja Ekki benda á mig.


Að mati Frumtaka má m.a. benda á eftirfarandi leiðir sem myndu styðja við lausn vandans:

  1. LGN og SÍ þurfa að starfa skv. gildandi lögum og reglum og nýjum fyrirmælum heilbrigðisráðherra.
  2. Forgangsraða fjármagni til heilbrigðiskerfisins á grundvelli skýrari markmiða en nú er gert.  T.d. er augljóst að auka þarf fjárveitingar til sjúkrahúslyfja sem nú þykja árangursríkust við alvarlegum sjúkdómum. Á móti þarf að nýta sparnað á öðrum sviðum í kerfinu til að fjármagna nýjar meðferðir. Hingað til hefur allur sparnaður/ávinningur verið tekinn jafnharðan út úr kerfinu.
  3. Bæta þarf áætlanagerð með auknu samstarfi ríkisvaldsins við mikilvæga hagsmunaaðila um það hvaða meðferðir eru væntanlegar á markað.

 

Sum grundvallarlyf eru ekki í boði hér

Að lokum má geta þess að ný sjúkrahúslyf við alvarlegum sjúkdómum sem komin eru á markað og lækna t.d. lifrarbólgu C teljast til grundvallarlyfja á lista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Það eru lyf sem WHO segir að fullnægi meirihlutaþörfum heilbrigðisþjónustu í hverju landi. Hugmyndin að baki grunnlyfjalistanum er sú að takmarkaður fjöldi vel valinna lyfja geti leitt til betri stýringar á lyfjanotkun, lægri kostnaðar og betri heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrur þetta fást lyfin ekki leyfð til notkunar hér á landi. Skýringin er sagður fjárskortur. Á sama tíma er ríkisvaldið tilbúið til að greiða kostnað vegna endurtekinna sjúkrahúslega sjúklinga sem ekki fá lyf, sem jafnvel geta læknað sjúkdóminn eins og nú er raunin með lifrarbólgu C. Það er dæmi um ranga forgangsröðun á fjármagni í eigu almennings.

 

Dæmi um frekari upplýsingar:

  1. Engin ný sjúkrahúslyf það sem eftir lifir árs
  2. Röng forgangsröðun í meðferð skattfjár almennings
  3. Brotalamir í stjórnsýslu og samanburður á lyfjaverði á Norðurlöndunum
  4. Drög að lyfjastefnu til ársins 2020

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.