Nýjum lyfjum hafnað þriðja árið í röð

20.09.2016

Enn eitt árið er upp komin sú staða að lyfjagreiðslunefnd hafnar umsóknum um ný sjúkrahúslyf vegna skorts á fjárheimildum. Um er að ræða lyf sem flest eru komin í notkun á öllum hinum Norðurlöndunum. Íslenskir sjúklingar hafa ekki aðgang að sömu lyfjameðferðum og eru í boði í viðmiðunarlöndum okkar.

Þessi staða er enn komin upp þrátt fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar í byrjun árs um að auka fjárveitingar til innleiðingar á nýjum lyfjum og þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar. Styrking gengisins hefur bein áhrif til lækkunar lyfjaverðs og þar með til lækkunar útgjalda hins opinbera vegna lyfjakaupa.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er búist við að útgjöld vegna sjúkrahúslyfja fari 9% fram úr heimildum fjárlaga í lok árs, þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar um 526 milljóna króna aukafjárveitingu. Fjárlög og viðbótarframlög þessa árs nema 6.792 milljónum króna, en áætluð útgjöld nema 7.399 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga.

Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin hefur Lyfjagreiðslunefnd nú hafnað að greiða fyrir ný lyf. „Sama staða kom upp í apríl í fyrra og síðla árs 2014,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

„Afleiðing þessa er að  íslenska heilbrigðiskerfið býður alvarlega veiku fólki ekki sömu úrræði í meðferð og sjúklingar í þeim löndum sem við höfum viljað bera okkur saman við. Svo vekur óneitanlega furðu að þessi staða sé komin upp á sama tíma og hagfelld gengisþróun krónu hefði átt að styðja við útgjaldaáætlanir hins opinbera, því lyfjaverð tekur sjálfkrafa lækkunum með breytingum á gengi í mánuði hverjum,“ segir Jakob Falur.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar, að fenginni tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra, frá því í febrúar sneri að því að tryggja fjármagn til að taka í notkun fleiri ný lyf á þessu ári. Á lista Landspítalans yfir forgangslyf sem afhentur var Lyfjagreiðslunefnd vegna stöðunnar voru meðal annars mörg ný krabbameinslyf.

Í viðtali Stöðvar 2 við heilbrigðisráðherra í febrúar kom fram að fjárheimildir til málaflokksins hafi verið of knappar og því hafi orðið að beita öllum leiðum til að tryggja það að óskum spítalanna um ný lyf yrði mætt. „Það er breytilegt hversu áríðandi þetta er, en við munum leita leiða til þess að tryggja að við getum innleitt forgangslyf,“ sagði heilbrigðisráðherra þá.

„Það virðist deginum ljósara að hér þurfi annað hvort að stórbæta áætlanagerð vegna sjúkrahúslyfja við gerð fjárlaga, eða búa til svigrúm til að bregðast við auknum útgjöldum, sé stjórnvöldum yfir höfuð alvara með yfirlýsingum um að hér eigi heilbrigðiskerfið að standast samanburð við það sem best gerist annars staðar,“ segir Jakob Falur.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.