Nýrri heilbrigðisáætlun Dana fagnað

29.08.2014

Í áætluninni er m.a. mörkuð skýr stefna um fjölþættari meðferðarúrræði fyrir sjúklinga með langtímasjúkdóma, þar sem lögð er áhersla á að grípa fyrr inní veikindaferli en nú er, og tekur sú stefnumörkun einnig og ekki síst til aukinna forvarna. Einnig er mörkuð stefna um markvissari og hnitmiðaðri. Að mati Lif eru þessar áherslur í miklu samræmi við grundvallaráherslur almennings í Danmörku og með nýju heilbrigðisáætluninni sé leitast við að koma til móts við þessi grunngildi. Aðstoðarframkvæmdastjóri Lif, Henrik Vestergaard, segir að það sé einmitt eitt af meginhlutverkum stjórnmálamanna, að fara að vilja fólksins eftir því sem kostur er.

 

Skynsamleg gæði og árangursmiðuð markmið

Vestergaard segir að skynsamleg gæði og árangursmiðuð markmið þurfi að innleiða á öllum stigum heilbrigðismála. „Það á einnig við þegar heilbrigðisyfirvöld vega og meta kostnað við opinber útgjöld vegna niðurgreiðslu á lyfjakaupum sjúklinga með langtímasjúkdóma á borð við lungnasjúkdóma, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, liðagigt eða þunglyndi, og einnig þegar metinn er kostnaður við fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. vegna reykinga eða áfengissýki.“

 

Virk áhrif sjúklinga

Vestergaard bendir einnig á að í heilbrigðisáætluninni er lögð áhersla á að þegar tekin sé ákvörðun um meðferðarúrræði, að þá taki sú ákvörðun mið af bæði þörfum sjúklingsins og þeim úrræðum sem tiltæk eru auk þess sem mikilvægt sé að sjúklingarnir sjálfir hafi tækifæri til að hafa áhrif þróun meðferðarinnar. „Í grunninn er meginmarkmið nýju heilbrigðisáætlunarinnar aukin áhersla á markvissa heilsugæslu og aukið heilsufarseftirlit með þeim sem eru í mikilli áhættu að fá langtímasjúkdóma,“ segir Vestergaard.

 

Virkt heilbrigðiseftirlit sjálfsögð réttindi

Nýja heilbrigðisáætlunin, eða vissir þættir hennar, auk kostnaðar við framkvæmd hennar, hafa hlotið nokkra gagnrýni úr vissum áttum en Vestergaard gefur lítið fyrir þá gagnrýni. Hann segir að virkt heilbrigðiseftirlit ætti að vera meðal helstu réttinda almennings auk þess sem sá kostnaður sem gert er ráð fyrir að áætlunin kosti sé meðal annars til komin vegna þess taps sem vinna þurfi upp vegna áralangs niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni.

 

Hækkerup hrósað

Lif gefur einnig heilbrigðisráðherra Dana, Nick Hækkerup, rós í hnappagatið fyrir heilbrigðisáætlunina, og þann hluta hennar sem fjallar um nauðsynlega nútímavæðingu og eflingu heilbrigðisþjónustunnar, þar með talið með byggingu nýrra hátæknisjúkrahúsa í Danmörku. Vestergaard segir að áætlun stjórnvalda geri jafnframt ráð fyrir auknu hlutverki og öflugri starfsemi hjá sjálfstætt starfandi læknastofum utan sjúkrahúsanna, sem þurfi jafnframt að standa undir auknum kröfum að því er varðar læknisfræðilega getu og betri gæði og skilvirkari þjónustu. Vestergaard segir að enda þótt 800 milljónir danskra króna sé ef til vill ekki há upphæð sem verja eigi til þessa þáttar, þá séu þessar milljónir engu að síður góð byrjun. Hann segir að fjárfestingaráætlun stjórnvalda sé sett fram á þeim tíma sem efnahagslegt svigrúm sé til staðar og Lif munu leitast við að hafa áhrif á útfærslu einstakra tillagnanna í heilbrigðisáætluninni.

 

Á Íslandi þarf að endurskoða kerfið í heild

Í þessu samhengi þykir Frumtökum vert að benda á þau sjónarmið sem m.a. Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður hefur viðrað í ræðu og riti um málaflokkinn hér á landi. Í nýlegri blaðagrein, sem þingmaðurinn skrifaði í tilefni af umræðu um mikinn skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um land allt, sagði Unnur að nauðsynlegt sé að skoða kerfið í heild. Hún sagði: „Besta leiðin til að takast á við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins til framtíðar er að gera áætlanir varðandi uppbyggingu og fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu líkt og tíðkast t.d. varðandi samgöngumál. Markmið slíkrar áætlunar er að nýta fjármuni skattborgara skynsamlega og veita þeim sem á þurfa að halda góða þjónustu. Ég mun á haustþingi leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að slík áætlun verði unnin af heilbrigðisráðherra og lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og samþykktar.“

 

Frekari upplýsingar

6949185-supersygehus-aarhus-skejby

Hátæknisjúkrahús rís í Skejby í Árósum. Ljm: Axel Schütt.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.