Nýtt sýklalyf skýrt merki um mikilvægi rannsókna og þróunar

16.01.2015

Þessi nýja uppgötvun varpar m.a. skýru ljósi á mikilvægi þess að unnt sé að stunda öflugar rannsóknir og markvissa þróun í lyfjaiðnaði, bæði í háskólum og hjá lyfjafyrirtækjum. Lyfjarannsóknir eru afar kostnaðarsamar. Því skiptir miklu máli fyrir þróun og rannsóknir að markaður sé fyrir ný og árangursrík lyf – að öðrum kosti dregur úr áhuga vísindamanna á þróun nýrra lyfja. Engar markverðar nýjungar hafa komið fram í þróun sýklalyfja í þrjá áratugi. Þó stafar heiminum mikil ógn af ofurónæmum bakteríum sem núverandi sýklalyf duga ekki gegn. Ástæðan er almenn notkun um allan heim og ofnotkun sýklalyfja, ekki síst í landbúnaði og akuryrkju þar sem sýklalyf eru gefin að óþörfu gegn vægum bakteríusýkingum. Af þessum ástæðum hafa bakteríur smám saman myndað varnarvegg gegn lyfunum.

Nýja lyfið drepur hratt og örugglega

Hið nýuppgötvaða efni, teixobaxtin, ræðst gegn Gram-jákvæðum bakteríum og segir Kim Lewis, forstjóri Þróunarseturs í syklalyfjafræðum við Northeastern háskólann í Boston, að lyfið bregðist afar hratt og vel við ofurónæmum bakteríum með því að koma í veg fyrir að örverurnar geti myndað frumuvegg til að verjast sýklalyfjunum. Án hans eiga bakteríurnar ekki möguleika á að þróa með sér mótstöðu gegn lyfjagjöfinni. Virkni lyfsins er auk þess án aukaverkana. Með teixobactin sér vísindaheimurinn nú fram á miklar framfarir í þróun nýrra sýklalyfja sem varðað geti leiðina gegn núverandi ónæmisvanda. Framundan eru frekari prófanir, en enn sem komið er hefur lyfið ekki verið prófað á mönnum. Talið er lýklegt að nýtt lyf verði komið á markað innan fimm ára.

Ofurónæmar bakteríur á borð við hryðjuverkaógn

Árlega deyja tugþúsundir manna af völdum sýklalyfjaónæmis. Í Bandaríkjunum einum stríða árlega tvær milljónir manna við sýkingar af völdum örvera sem núverandi sýklalyf duga ekki gegn. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lengi talað fyrir nauðsyn þess að þróa ný sýklalyf en þau sem nú eru í boði áður en það verði of seint. Til marks um það hve málið er litið alvarlegum augum er að landlæknir Bretlands, Sally Davies, hefur nýlega skilgreint hættuna af völdum ónæmra baktería sem ógn við þjóðaröryggi sem taka verði jafn föstum tökum og þá hættu sem heiminum stafi af hryðjuverkaógn.

Frekari upplýsingar

  • Fréttaskýring RT Autonomous Nonprofit Organization – HÉR

  • Fréttaskýring Telegraph – HÉR

  • Fréttaskýring Mbl – HÉR

shutterstock_47176636_630m

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.