Ögmundur í Undralandi

19.12.2006
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingflokksformaður Vinstri grænna, vill sem stjórnmálamaður láta taka sig alvarlega. En þegar raunveruleikinn er annar en hinn pólitískt rétti málstaður, þá skiptir áróðurinn og málflutningurinn meira máli eða hvað? Ögmundur sagði í samtali við Fréttastofu Stöðvar tvö í tilefni af samþykkt Alþingis um lækkun virðisaukaskatts, m.a. á geisladiska og gosdrykki, að skoða mætti lækkun virðisaukaskatts á lyf, en að umræða síðustu mánaða hafi leitt í ljós að hátt verðlag á lyfjum er fyrst og fremst til komið vegna fákeppni [...] og mikillar álagningar þeirra sem annast sölu og dreifingu á lyfjum

Ég geri ráð fyrir að Ögmundur hafi tekið eftir yfirlýsingum heilbrigðisráðherra og formanns Lyfjagreiðslunefndar sem hafa fagnað góðu samstarfið við framleiðendur frumlyfja og þeirri staðreynd að verð frumlyfja sé nú hið sama hér og í samanburðarlöndum okkar. Ég geri líka ráð fyrir að Ögmundur viti vel að það eru stjórnvöld, hið opinbera sem hann hallar sér svo gjarnan að, sem í raun ákveða lyfjaverð. En staðreyndir sem þessar henta ekki málflutningi Ögmundar. Raunveruleikinn hentar ekki Ögmundi. Það er betra að lifa í Undralandi, segja það sem hentar og afneita raunveruleikanum. Staðreyndin er sú að heildsöluverð frumlyfja hér á landi er nú 6,4% lægra en í Danmörku. Ríkið hefur notið þess, en ekki almenningur. Almenningur myndi sannarlega njóta lækkun virðiskaukaskatts á lyf. En Ögmundur sér það ekki. Hann sér væntanlega Lyfjaverzlun ríkisins í sínu Undralandi í hillingum, með opinbera starfsmenn raðandi í rekkana, greiðandi félagsgjöld til Ögmundar og félaga hvort sem þeim líkar betur eða ver. Þá kýs ég frekar raunveruleikann og nýt þess að lesa um Lísu í Undralandi. Ögmundur, Undralandið er hennar en ekki þitt. Vertu með okkur hinum í raunveruleikanum.

____________________
Jakob Falur Garðarsson

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.