Okkar eigið fé

16.03.2017

Við vinnufélagarnir í Húsi atvinnulífsins göntuðumst með það í mötuneytinu í vikunni að það vantaði flaggstöng við húsið til að flagga á tyllidögum. Höftin farin og bjartsýni ríkjandi. Nú gefast lífeyrissjóðunum aukin tækifæri til fjárfestinga erlendis, sem er vel. Á sama tíma virðist sem umræða í samfélaginu um aukna aðkomu fleiri og ólíkra aðila, t.d. að fjármögnun samgöngumannvirkja, fari vaxandi. Sem er líka vel. Við eigum óhrædd að nálgast það með opnum huga að ræða breytt eignarhald á hinum ýmsu samgöngumannvirkjum, til að mynda á Flugstöðinni í Keflavík, og jafnvel flugvellinum í heild sinni. Við eigum bundið gríðarlegt fé, okkar eigið fé, í þessum mannvirkjum, sem við svo sannarlega gætum nýtt með öðrum og skynsamlegri hætti. Karpað er um fjármögnun samgöngubóta um land allt, fyrir vestan, norðan og austan. Það er ekki boðlegur akvegur á milli helstu þéttbýlissvæða á Vestfjörðum – og hefur aldrei verið!

Sama má segja um heilbrigðiskerfið. Allir stjórnmálaflokkar sem buðu fram til Alþingis fyrir síðustu kosningar gerðu mikið úr áherslum sínum til stuðnings heilbrigðiskerfinu. Og heilbrigðiskerfið er efst á blaði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Það er vissulega búið að bæta í framlög til heilbrigðiskerfisins, en á meðan ekki fæst heimild, svo dæmi sé tekið, fyrir krabbameinslyfjameðferð á Íslandi sökum fjárskorts, lyfjameðferð sem hefur verið í notkun á hinum Norðurlöndunum um árabil, þá er ekki hægt að segja annað en heilbrigðiskerfið sé fjársvelt.

Flugstöðin í Keflavík er bara eitt dæmi um fasteign í eigu okkar allra, sem svo auðveldlega gæti verið í eigu og umsjón annarra. Sjúkrahótel á lóð Landspítala er annað lítið og afmarkað dæmi. Það fé sem við eigum bundið í fasteignum sem þessum gæti svo sannarlega gert meira gagn fyrir okkur sem samfélag á öðrum stöðum og með öðrum hætti. Á þann hátt getum við farið betur með okkar eigið fé.

____

Þessi Endahnútur birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 16. mars 2017.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.