Ósanngjarnt í umræðu um ADHD lyf að fjalla sérstaklega um vörumerki fremur en lyfjaflokkinn.

10.09.2010

Umræðan um lyfjanotkun vegna ADHD undanfarið hefur ekki alltaf verið á grundvelli sanngirni eins og Frumtök bentu á í síðustu frétt sinni. Umræðan hefur sveiflast á milli þess að gera greinarmun á þeim sem taka lyf í flokki metýlfenídat lyfja þar sem þeim er skipt í fullorðna og börn yfir í að tilgreina sérstaklega eitt vörumerkið á markaðnum – Ritalin.

Í þessu sambandi er rétt, og reyndar mikilvægt, að benda á að um algengan misskilning er að ræða. Í umræðunni er oft talað um Ritalin eða „Rítalín“ sem einhvers konar samheiti yfir lyfjaflokk eða mörg lyf. Hið rétta er að Ritalin er sérnafn á lyfi sem inniheldur virka efnið metýlfenídat. Ritalin Uno og Concerta eru einnig sérlyf sem innihalda metýlfenídat. Lyfin innihalda öll sama virka efni en þó er munur á lyfjunum meðal annars hvað varðar styrkleika og lyfjaform. Réttara er því, þegar verið er að tala um þennan flokk lyfja, að tala um lyf sem innihalda metýlfenídat.

Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki gætt fyllsta hlutleysis þegar talað erum lyf við ADHD og hefur nýleg Ritalin umræða verið gott dæmi um það.

Ráðuneytið skapar félagslegan þrýsting

Ekki er nóg með það að beinlínis sé rangt að tala um einstakt merki í umræðunni heldur hefur þessi umræða líka áhrif á þá sem neyta lyfjanna en búast má við því að neytendur metýlfenídatlyfja upplifi félagslegan þrýsting vegna greiningar sinnar þegar umræðan er á þessum nótum.

Í ritstjórnargrein í nýjasta hefti Læknablaðsins skrifar Matthías Halldórsson, læknir á geðsviði Landspítala, um að vissulega sé hægt að misnota metýlfenídatlyf en margir þurfi hinsvegar á lyfjunum að halda. Umræðan eins og hún hefur verið undanfarið ýtir hinsvegar undir fordóma gagnvart þeim sem nota lyfin að læknisráði.

Með því að tala einfaldlega um metýlfenídatlyf væri strax komið hjá því að beintengja umræðuna við þá sem þurfa á lyfjunum að halda. Um leið væri hægt að ræða fordómalaust um misnotkunina á lyfjunum sem snýr að virka efninu metýlfenidat.

Það væri óskandi að fjölmiðlar, almenningur og sérstaklega heilbrigðisyfirvöld, myndu færa umræðuna yfir á nýtt plan þar sem sanngirni er beitt og hvorki sjúklingar né einstök vörumerki eru tengd við sértækt vandamál.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.