Ótal snertifletir við samfélagið

13.10.2017

„Lyfjaframleiðsla skiptir samfélagið svo sannarlega máli og á við það ótal snertifleti,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Bæði sé ávinningur samfélagsins mikill þegar árangur náist í baráttu við illvíga sjúkdóma og að auki efli fjárfesting lyfjafyrirtækja í þróun og rannsóknum á lyfjum samfélög með beinum hætti.

„Sem dæmi um þann ávinning sem lyfjaþróun hefur í för með sér má nefna stórkostlegan árangur af átaki gegn lifrarbólgu C hér á landi,“ nefnir Jakob Falur, en um og yfir 600 manns hafa þegið lyfjameðferð gegn lifrarbólgu C frá því opinbert þriggja ára átak gegn henni hófst í byrjun síðasta árs. Í átakinu vinna heilbrigðisyfirvöld með lyfjaframleiðandanum Gilead sem leggur til ný lyf í baráttunni við sjúkdóminn.

„Talið er að þegar hafi náðst til 70-80% þeirra sem eru smitaðir hér á landi. Um 95% þeirra sem luku meðferð á fyrsta ári átaksins læknuðust,“ segir í nýlegri fréttaskýringu Morgunblaðsins um málið.

„Bætt heilsufar þjóðarinnar er lóð á vogarskál aukinnar hagsældar, enda ómældur kostnaður sem fylgir því þegar fólk heltist úr lestinni sökum heilsubrests, svona fyrir utan persónulegan ávinning fólks með auknum lífsgæðum sem bætt heilsa hefur í för með sér. Þarna skipta ný og sífellt betri lyf höfuðmáli,“ bætir Jakob Falur við.

Þá segir Jakob Falur tækifæri fólgin í áframhaldandi uppbyggingu þekkingariðnaðar í lyfjageira hér á landi, en hér séu allar aðstæður til staðar, tæknilegir innviðir og góð menntun. Þegar kemur að framlögum til rannsókna og þróunar (R&D) skera lyfjaframleiðendur sig algjörlega úr. Enginn annar geiri skilar jafnháu hlutfalli af veltu í rannsóknir og þróun.

„Staðreyndin er að rúm 16 prósent af veltu lyfja- og líftæknifyrirtækja er veitt til rannsókna og þróunar. Sá geiri sem næst kemst þessu hlutfalli er hugbúnaðar- og tölvuþjónusta, en er þó aðeins hálfdrættingur, með 9,7 prósent af veltu sinni til rannsókna og þróunar,“ bendir Jakob á.

Kostnaður við rannsóknir og þróun sem liggur að baki nýju frumlyfi er í nýlegum tölum EFPIA, samtaka lyfjaframleiðenda í Evrópu, talinn nema um 1.044 milljónum Bandaríkjadala árið 2013, eða sem svarar rúmum 112 milljörðum króna.

EFPIA áætlar að á síðasta ári hafi lyfja- og líftæknifyrirtæki veitt 35 milljörðum evra til rannsókna og þróunarstarfs, eða sem svarar til 4.400 milljarða íslenskra króna. Í geiranum hafi starfað um 745 þúsund manns, þar af 115 þúsund beint við rannsóknir og þróun. 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.