Raunveruleikinn endurspeglaður í hækkun

04.01.2018

Með samþykki Alþingis á frumvarpi til fjárlaga 2018 í lok desember er í fyrsta sinn tekið tillit til raunkostnaðar við innkaup á leyfisskyldum lyfjum, einnig nefnd sjúkrahúslyf, eða S-merkt lyf. Með þessu er horfið frá því ástandi sem ríkt hefur mörg síðustu ár að fjárveitingar til kaupa á leyfisskyldum lyfjum hafa verið vanáætlaðar í fjárlögum þannig að grípa hefur þurft til sértækra aðgerða vegna skorts Sjúkratrygginga Íslands á fjárheimildum til innleiðingar á nýjum lyfjum.

Ummæli ráðamanna sem fram hafa komið í fréttum um kostnaðarauka vegna leyfisskyldra lyfja, svo sem HÉR í frétt RÚV hljóta að skoðast í því ljósi að verið er að taka á áralöngum uppsöfnuðum vanda, sem meðal annars hefur orðið til þess að Ísland er eftirbátur nágrannalanda sinna í upptöku nýrra krabbameinslyfja.

Í minnisblaði Sjúkratrygginga um fyrirséða aukningu kostnaðar í lyfjum og lækningavörum milli áranna 2017 og 2018, úr 17,1 milljarði í 22,5 milljarða, er áréttað að hafa beri í huga að mjög mikill halli hafi myndast strax á árinu 2017. Raunverulegur kostnaður sé því nær 20 milljörðum á þessu ári.

„Í raun má því segja að í fjárlagafrumvarpi 2018 sé verið að leiðrétta uppsafnaðan halla fyrri ára sem smám saman hefur myndast því fjárlög hafa um nokkurt skeið gert ráð fyrir minni útgjöldum en raunin hefur verið,“ segir í minnisblaðinu. „Sjúkratryggingar Íslands hafa átt erfitt með að standast fjárlög þar sem kostnaður ræðst að langmestu leiti af lögum, reglugerðum og ákvörðunum Lyfjagreiðslunefndar um innleiðingu nýrra S-lyfja. Með þeirri útgjaldaaukningu sem fjárlagafrumvarp 2018 gerir ráð fyrir eru allar líkur á að stofnuninni takist að halda fjárlög í þessum málaflokkum frá og með árinu 2018.“

„Það er rétt sem bent hefur verið á að ný lyf eru dýrari, enda ríkar kröfur gerðar um gæði, öryggi og virkni. Lyfjaþróun er kostnaðarsöm, en  það eru engin ný sannindi,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar, að minnsta kosti í orði, viljað standa jafnfætis nágrannalöndunum þegar kemur að stuðningi við heilbrigðiskerfi landsins og þar með aðgengi sjúklinga að nýjustu og bestu lyfjum.“ Um leið bendir hann á að staðreyndirnar um útgjöld til heilbrigðismála tali sínu máli, en tölur frá Sjúkratryggingum Íslands sýna að hlutur lyfja í heilbrigðisútgjöldum landsins hefur dregist saman síðustu ár. Hæst fór hlutfallið í 13% árin 2009 til 2011, en hefur farið lækkandi síðan með hverju ári og var komið í 9% árið 2016. Endanlegar tölur fyrir síðasta ár liggja ekki fyrir. „Við höfum jafnframt verið eftirbátar hinna Norðurlandanna þegar kemur að innleiðingu nýrra lyfja. Ef það á að gera betur þá þarf að kosta einhverju til.“

Um leið segir Jakob Falur ánægjulegt að með nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi sé brugðist við þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin ár og ríflega fjórum milljörðum bætt við málaflokkinn. Með því sé ekki bara tekið á uppsöfnuðum vanda, en tekið er tillit til notkunar síðasta árs og að auki um 700 milljóna króna viðbótarframlag, eyrnamerkt innleiðingu nýrra lyfja í ár.

Þá segir Jakob Falur erfitt að átta sig á fullyrðingu Steingríms Ara Arasonar, forstjóra Sjúkratrygginga, í frétt RÚV um að kostnaður við leyfisskyld lyf hafi vaxið um 12 til 16 prósent á hverju ári það sem af sé öldinni. „Með hruni krónunnar 2008 og 2009 jókst reyndar kostnaður um og yfir 50% þau ár, en stóð líka í stað 2010. Næstu ár nam aukning 8,8%, 11,3% og 8,6% og var svo 0,7% frá fyrra ári 2014 og 2,1% árið 2015. Núna sýnist okkur að kostnaðarauki milli áranna 2017 og 2018 geti numið 14,3%, en það á sér líka sínar skýringar, líkt og rakið hefur verið hér að ofan.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.