Rausnarleg gjöf ÍE til íslensku þjóðarinnar

27.08.2015

kskjFyrir stuttu bárust þær mjög svo ánægjulegu fréttir að Íslensk erfðagreining, einn stofnaðila Frumtaka, hefði fært þjóðinni stóra gjöf. Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, færði íslenska ríkinu jáeindaskannan að gjöf, en slíkt tæki kostar um 800 milljónir króna. Ljóst er að tilkoma þessa tækis mun hafa mikil áhrif á líf og heilsu fjölda fólks, en um er að ræða algjört lykiltæki við umönnun krabbameinssjúkra. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, veitti gjöfinni viðtöku í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar. Kári segir í viðtali við Kjarnann ástæðu gjafarinnar vera augljósa enda sé mikil þörf fyrir svona skanna á Íslandi. „Það er varla hægt að halda því fram að við séum með nútíma læknisfræði í gangi án þess að hafa svona skanna,“ segir hann. Í tilefni þessa skrifaði Pétur H. Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar Landspítala, grein í Fréttablaðið til að gera frekari grein fyrir þessari rausnarlegu gjöf og hvaða þýðingu hún hefur fyrir gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Grein Péturs fer hér á eftir í heild sinni.

 

Þau gleðilegu tíðindi bárust í síðustu viku að Íslensk erfðagreining hefði ákveðið að gefa þjóðinni rausnar­lega gjöf sem mun hafa afdrifarík áhrif á líf og heilsu fjölda fólks. Jáeinda­skanni er öflug myndgreiningarrannsókn til greiningar sjúkdóma. Ekkert slíkt tæki hefur verið til hér á landi sem setur lækningar alvarlegra sjúkdóma skör lægra en hjá nágrannalöndum okkar. Jáeindaskanni mun verða stórt framfaraskref ef ekki bylting í greiningu margra sjúkdóma.

Fjöldi sjúklinga í jáeindaskanna mun tífaldast

 
Fjöldi sjúklinga hefur þurft að leita erlendis til að fá þessa rannsókn framkvæmda enda getur hún haft afgerandi áhrif á meðferð þeirra. Fjöldi þeirra sem hafa farið utan í rannsóknina hefur stöðugt aukist en þó hefur aðeins hluti þeirra sem vegna sjúkdóms síns hefðu haft gagn af henni átt þess kost. Í ár munu um 200 sjúklingar fara erlendis en áætlað er að þörfin hér á landi geti verið um 2.000 rannsóknir árlega. Mun fleiri sjúklingar munu því í framtíðinni fá nákvæmari og betri greiningu meina sinna en nú er mögulegt.

Betri greining, markvissari meðferð og færri skurðaðgerðir

 
Notkun jáeindaskanna felst að stærstum hluta í greiningu og mati á illkynja sjúkdómum. Tæknin gefur nákvæmar upplýsingar um dreifingu og staðsetningu krabbameina sem getur fækkað óþarfa skurðaðgerðum og gert geislameðferð markvissari. Rannsóknin gefur betri upplýsingar um útbreiðslu sjúkdóms en þær aðferðir sem við notum nú hjá allt að þriðjungi sjúklinga og hefur þannig áhrif á meðferð hjá stórum hluta þeirra. Til dæmis að taka mun skanninn fækka erfiðum skurðaðgerðum við lungnakrabbameini um 10%. Fyrir geislameðferð er unnt að afmarka æxli betur og minnka þannig geislun á sjúkling. Lyfjameðferð margra krabbameina verður markvissari sem eykur batahorfur, minnkar aukaverkanir og sparar samfélaginu fjármuni. Með því að greina snemma í meðferð með jáeinda­skönnun hvernig sjúkdómur bregst við henni er unnt að sérsníða meðferðina fyrir sjúklinginn.

 

Fjölbreytt notagildi

 
Notkun jáeindaskanna er algengust við krabbameini en tæknin hefur einnig notagildi í öðrum sjúkdómum svo sem í taugalækningum, hjartalækningum og gigtlækningum.
Þótt jáeindaskönnun sé gagnleg aðferð sem sannað hefur gildi sitt í fjölda sjúkdóma eru möguleikar tækninnar til lengri tíma litið enn meiri. Nýjar rannsóknaraðferðir með jáeindaskanna eru handan við hornið og tæknin getur orðið afgerandi í ákvörðun meðferðar sjúkdóma með nýjum og dýrum lyfjum.

Jáeindaskanni krefst sérhæfðs og flókins tækjabúnaðar. Aðferðin notar skammlífa geislavirka samsætu sem framleidd er á staðnum. Til þess er notaður öreindahraðall og er í raun um að ræða lyfjaframleiðslu sem notar geislavirk efni. Geislavirk efni eru tengd merkiefni sem hefur sækni í sjúka vefi í líkamanum. Það er framleiðsla efnanna sem síðan eru notuð í jáeindaskannann sem gerir þessa rannsóknaraðferð jafn flókna og kostnaðarsama og raun ber vitni. Byggja þarf sérhæft húsnæði fyrir framleiðslu geislavirka merkiefnisins og jáeindaskannann. Því verður fundinn staður á Landspítala aðlægt skyldri starfsemi til að ná sem mestri skilvirkni og þægindum fyrir sjúklinga.


Jáeindaskanni mikilvægur í vísindastarfi

 
Vísindastarf er snar þáttur í starfi Landspítalans. Þar sem jáeinda­skönnun er staðalrannsóknaraðferð við marga sjúkdóma hefur vöntun á tækninni hamlað vísindamönnun á spítalanum í fjölþjóðasamvinnu. Tækið mun því auka tækifæri á vísindasamstarfi og verða góður hvati til vísindavinnu á mörgum sviðum. Munu íslenskir vísindamenn án efa nýta sér þessa nýju tækni á komandi árum.

Kappkostað verður að koma jáeindaskanna í notkun svo fljótt sem auðið er. Starfsfólk Landspítala er metnaðarfullt fagfólk sem tekur nýrri tækni og áskorunum fagnandi. Það er von mín að stjórnvöld og spítalinn munu fylgja þessari gjöf Íslenskrar erfðagreiningar eftir með nauðsynlegu rekstrarfé enda ávinningurinn fjárfesting í bættri heilsu landsmanna. Fyrir hönd röntgendeildar Landspítala vil ég þakka Íslenskri erfðagreiningu fyrir þessa kærkomnu og rausnarlegu gjöf. Eins og kunnugt er hafa fjárveitingar til tækjakaupa spítalans verið ónógar til fjölda ára sem gerir gjafir til tækjakaupa mikilvægar til þess að Landspítalinn geti veitt fullkomna og nútímalega læknisþjónustu.

 

Mynd af Kára Stefánssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni að takast í hendur; © Vísir/Vilhelm

Sjá nánar: Stórgjöf Íslenskrar erfðagreiningar: Kaup og uppsetning á jáeindaskanna

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.