Rétta þarf kúrsinn til framtíðar

15.11.2017

Nú þegar rykið sest að afloknum Alþingiskosningum er ekki úr vegi að skjóta að væntanlegri ríkisstjórn ábendingum um hluti sem betur mættu fara, í von um að tekið verði til hendinni. Frumtök – samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi hafa um árabil kallað eftir stefnumörkun í heilbrigðismálum þar sem meðal annars yrði komið í veg fyrir þann vandræðagang sem einkennt hefur fjárveitingar til kaupa á nýjum lyfjum á hverju einasta ári síðastliðin ár. Sjá umfjöllun HÉR.

Vanáætlun á framlögum til innkaupa á nýjum lyfjum hér á landi á sér svo þá birtingarmynd að Ísland hefur verið eftirbátur þeirra landa sem við helst berum okkur saman við þegar kemur að upptöku nýrra lyfja, líkt og fjallað eru um HÉR á vef Frumtaka.

Frá stofnun Frumtaka 2005 hafa átta setið á stóli heilbrigðisráðherra, þau Jón Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ögmundur Jónasson, Álfheiður Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Kristján Þór Júlíusson og Óttarr Proppé.

Vissulega hefur ýmislegt áunnist á þessum tíma, svo sem þegar á þessu ári komst aftur hreyfing á samþykki nýrra lyfja vegna sértækra aðgerða velferðar- og fjármálaráðherra (sjá HÉR) og fagnaðarefni að í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar til næstu ára voru tekin skref í rétta átt með því að gera ráð fyrir auknum fjármunum vegna nýrra lyfja. Um leið hafa verið vonbrigði að sjá önnur mál daga uppi, svo sem ný lyfjalög sem voru tilbúin, en náðist ekki að afgreiða á Alþingi fyrir þarsíðustu kosningar, fyrir tveimur árum síðan (sjá HÉR).

Heilbrigðismál vega einna þyngst þegar fólk hefur fyrir síðustu kosningar verið spurt hvaða málefni eigi að setja á oddinn og hvar þurfi að helst að taka til hendinni í þjóðfélaginu. Þörf er á heildrænni stefnumörkun til framtíðar í heilbrigðiskerfinu þar sem markvisst er unnið að úrbótum á þeim sviðum þar sem á hefur bjátað. Því er ekki úr vegi að kasta fram spurningunni um hvort þess megi vænta að næsti heilbrigðisráðherra verði sá sem setur kúrsinn og réttir hann til framtíðar? 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.