Ríkisstjórnin samþykkir aukið fjármagn til lyfjakaupa

24.02.2016

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu heilbrigðisráðherra um að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, að tryggja aukið fjármagn svo unnt verði að taka í notkun fleiri ný lyf á þessu ári 2016. 

Í fjárlögum ársins 2016 er gert ráð fyrir að fjárheimildir til s-merktra lyfja verði 6.266 m.kr. Heilbrigðisráðherra ákvað í janúar að veita hundrað milljóna króna viðbótarframlag af safnlið ráðuneytisins til að greiða fyrir innleiðingu fleiri nýrra lyfja, að höfðu samráði við lyfjagreiðslunefnd.

Lyfjagreiðslunefnd hefur nú fengið frá Landspítala yfirlit yfir þau forgangslyf sem spítalinn óskar eftir að fá að innleiða á þessu ári. Á þeim lista eru m.a. mörg ný krabbameinslyf. Lyfjagreiðslunefnd hefur vakið athygli á að aðrar Norðurlandaþjóðir hafi samþykkt greiðsluþátttöku í flestum þeirra lyfja sem eru á forgangslista Landspítala en fjárheimildir eins og þær voru ákveðnar í fjárlagafrumvarpinu nægja ekki til að standa straum af þeim kostnaði sem leiðir af innleiðingu þeirra. 

Einn helsti óvissuþáttur við gerð áætlana um innleiðingu nýrra lyfja felst í því að meta hve margir sjúklingar muni þurfa á lyfjunum að halda. Þegar um er að ræða mjög dýr lyf getur það kollvarpað fyrirliggjandi áætlun ef sjúklingar sem á lyfjunum þurfa að halda reynast fleiri en áætlað var. 

Heilbrigðisráðherra fundaði með lyfjagreiðslunefnd í byrjun þessa árs þar sem fram kom að nefndin teldi ekki unnt að innleiða ný S-merkt lyf á þessu ári miðað við framlög fjárlaga. Í framhaldi af því veitti ráðherra 100 milljóna króna aukið framlag til að greiða fyrir innleiðingu nýrra lyfja en ákvað jafnframt að leggja til við ríkisstjórnnina að leggja aukið fé til málaflokksins, líkt og samþykkt var á fundi hennar í morgun. Markmðið er að gera kleift að innleiða öll þau lyf sem sett hafa verið á forgangslista af hálfu Landpítalans. 

Heilbrigðisráðherra fagnar þessari niðurstöðu

„.Það er ljóst að með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður unnt að innleiða fleiri ný lyf en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er afar mikilvægt því þar með getum við þjónað sjúklingum betur og á sambærilegan hátt og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.  

Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra áætla að kynna tillögur um viðbótarfjármagn til málaflokksins síðar í þessum mánuði.

Nánar.

Mynd með frétt: RUV

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.