Röng forgangsröðun í meðferð opinbers fjár

17.04.2015

1221258_challengesÁ sama tíma og stjórnvöld lýsa áhuga á að minnast 100 ára fullveldis frá Dönum þann 1. desember 2018 með stórfelldum byggingaframkvæmdum stöndum við frammi fyrir umtalsverðum brotalömum í þjónustu heilbrigðiskerfisins við landsmenn. Nær daglega berast fréttir af alvarlegri stöðu í heilbrigðiskerfinu og þjónustan þess eðlis um þessar mundir að ekki verður við unað.

Eins og greint var frá hér í síðustu viku eru engar fjárheimildir til staðar fyrir nýjum sjúkrahúslyfjum enda þótt nú sé aðeins liðið á aprílmánuð á fjárhagsárinu. Í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins 11. apríl, staðfesti formaður Lyfjagreiðslunefndar að ástandið er í raun alvarlegra en áður hefur komið fram, því hann staðfesti að engin ný sjúkrahúslyf hafi verið samþykkt hjá nefndinni á árinu og við blasi að svo verði allt þetta ár nema forsendur breytist.

Áfram aftar á merinni

Það liggur því nánast fyrir að alvarlega veikir sjúklingar hér á landi muni sitja áfram aftar á merinni en sjúklingar í nágrannalöndunum þegar kemur að aðgangi lækna að nýjum og árangursríkari meðferðarúrræðum sjúklingum sínum til handa. Þann aðgang hafa sjúklingar í hinum löndunum nú í ríkari mæli en raunin er hér á Íslandi.

Ekki rétt hjá forstjóra SÍ

Þá er það því miður ekki alveg rétt hjá forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þegar hann segir í sama viðtali við Fréttablaðið 11. apríl að Ísland þoli enn samanburð við nágrannalöndin þegar skoðuð er innleiðing nýrra lyfja hér á landi og erlendis. Það var t.d. staðfest í skýrslu sem Frumtök kynntu s.l. haust og hefur aldrei verið jafn skýrt og nú þegar virðist blasa við að engin ný sjúkrahúslyf verði innleidd á árinu 2015. Þá er sérstakt að forstjóri SÍ velti því fyrir sér hvort búið sé að „þurrausa alla möguleika til að ná kostnaði niður“ vegna sjúkrahúslyfjanna, þegar staðreyndin er sú að hér á landi, allt frá árinu 2010, hafa þau verið á lægsta verði á Norðurlöndunum skv. reglugerð heilbrigðisráðherra. 

Röng forgangsröðun

Í ljósi þessa og frétta af sambærilegum brotalömum annars staðar í heilbrigðiskerfinu, hljómar það ankannanlega að heyra forystumenn ríkisstjórnarinnar lýsa yfir áhuga á að ráðast í milljarða króna fjárfestingar í opinberum byggingum, t.d. fyrir skrifstofur Alþingis, í uppbyggingu á Þingvöllum og nýbyggingu fyrir Stofnun íslenskra fræða á Melunum, á sama tíma og við blasir að fjármögnun heilbrigðiskerfisins er ekki sem skildi.

Enginn jáeindaskanni

Kári Stefánsson skrifaði af þessu tilefni þarfa grein í Morgunblaðið 14. apríl, þar sem hann tók annað dæmi af því hvernig komið er fyrir kerfinu – þeirri staðreynd að hér á landi er ekki til jáeindaskanni. Af þeim sökum séu á annað hundrað sjúklingar sendir árlega til Danmerkur til að fara í slíkan skanna, með tilheyrandi kostnaði og  óþægindum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra.

 

Kári segir: „Við getum ekki lengur sinnt sjúklingum okkar án þess að leita á náðir Dana. Það er með öllu óásættanlegt og í engu samræmi við þær væntingar sem Íslendingar höfðu í byrjun desember árið 1918. Það væri miklu nær andanum að baki fyrsta desember að halda upp á hundrað ára afmæli hans með því að flytja jáeindaskanna til landsins og endurheimta á þann hátt það sjálfstæði frá Dönum sem við viljum hafa og forfeður okkar börðust fyrir. Ein hliðin á þessu er sú að það er mikilvægara fyrir íslenskt mál að halda lífinu í þeim sem tala það en að reisa hús yfir þá sem rannsaka það,“ segir Kári og er ekki að efa að mikill meirihluti landsmanna sé honum sammála í þessum efnum.

Fleiri taka undir áhyggjur

 Undir þetta tekur leiðarahöfundur Morgunblaðsins 15. apríl. Hann bendir á að það kosti sitt að senda sjúklinga til Danmerkur í greiningu. Það sem verra sé er að velja þurfi úr sjúklinga til fararinnar. Jáeindaskönnun hér á landi myndi því koma mun fleiri sjúklingum til góða en nú fá slíka greiningu í Danmörku. Leiðarahöfundur bendir á að ekki sé nauðsynlegt að skanninn sé staðsettur í bráðakjarna Landspítalans sem m.a. hefur verið notað sem rök með því að bíða með kaup á jáeindaskanna þar til nýr spítali rís. „Með notkun jáeindaskanna verður meðferð markvissari og auðveldara að fylgjast með og sjá árangurinn. Fyrir vikið gæti dregið úr lyfjagjöf og óþörfum skurðaðgerðum. Það er ekki til lítils að vinna,“ segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins.

Víðast hvar staðalbúnaður

Blaðið fylgdi málinu eftir daginn eftir með viðtölum við lækna á LSH, sem segja Ísland eina landið í N-Evr­ópu sem ekki eigi já­eindaskanna og það hafi marg­vís­leg nei­kvæð áhrif á heil­brigðisþjón­ustuna í landinu enda slíkt tæki staðal­búnaður á sjúkra­hús­um víða um heim. Pét­ur Hann­es­son, yf­ir­lækn­ir á röntgendeild Land­spít­ala, segir að í ljósi þessa ástands sé hér ekki veitt besta hugs­an­lega heil­brigðisþjón­usta. Í sama streng tekur Tóm­as Guðbjarts­son, skurðlækn­ir á Land­spít­al­an­um sem segir jáeindaskanna notaðan í dag­leg­um störf­um krabba­meins­lækna um allan heim nema á Íslandi.

Gera þarf miklu betur

Í ljósi alls þess færi vel á því, um leið og stórfengleg byggingaráform hins opinbera eru kynnt, að stjórnvöld lýstu því yfir að við sem þjóð viljum og munum standa til jafns við Norðurlöndin þegar kemur að gæðum heilbrigðisþjónusunnar.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.