Sagan endurtekur sig

08.12.2016

Verði ekkert að gert er ljóst að fjárheimildir til kaupa á nýjum lyfjum munu ekki duga á næsta ári fremur en síðustu ár. „Við megum því eiga von á því að sjá aftur fréttir af áhyggjufullum sjúklingum sem ekki fá þau lyf sem læknar þeirra myndu helst vilja ávísa. Það eru vonbrigði að í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram á Alþingi í vikunni sjáist þess ekki merki að taka eigi á því að hér hafa ár eftir ár ný lyf ekki verið samþykkt þegar kemur fram á haust,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Jakob segir að þótt samkvæmt áætlun ríkisfjármála sé gert ráð fyrir 1% magnaukningu í almennum lyfjum og 3% aukningu í sjúkrahúslyfjum (S-merktum lyfjum) þá sé sú aukning ekki í neinu samræmi við raunveruleikann eða uppsafnaða þörf. „Þessi aukning miðar við einhvern raunveruleika sem ekki er til annars staðar en í fjármálaráðuneytinu,“ segir hann.

Fyrir kosningar í haust var samhljómur í málflutningi allra stjórnmálaflokka um að styðja þyrfti betur við heilbrigðiskerfi landsins. „Sú samstaða virðist ekki hafa skilað sér í fjárlagavinnuna og óhætt að taka undir með þeim sem það hafa gagnrýnt.“ Meðal þeirra sem gert hafa athugasemdir við fjárlagafrumvarpið eru Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, en í Fréttablaðinu í dag segir hann Fjárlögin „hamfarir“ fyrir spítalann, sem að óbreyttu þurfi að skera niður um rúma fimm milljarða króna.

Styrking krónunnar þýðir líka að framlög til lyfjakaupa lækka í fjárlögum næsta árs, eða um 2,3 milljarða króna milli ára. Jakob Falur segir útgjöldin eðlilega taka mið af gengi krónunnar, en á skorti að gert sé ráð fyrir magnaukningu og vexti til jafns við raunverulega þörf.

Í frumvarpinu kemur fram að áætlað sé að umframútgjöld sjúkratrygginga á þessu ári gætu orðið um 3,6 milljarðar króna. „Meginskýringin á halla sjúkratrygginga á yfirstandandi ári er umtalsverð meiri magnaukning í notkun S-lyfja en áætlað var í forsendum fjárlaga 2016 auk upptöku nýrra S-lyfja,“ segir í frumvarpinu og bent á að dregið hafi verið úr upptöku nýrra lyfja á árunum eftir efnahagshrun sem hægt hafi á kostnaðaraukningu vegna þeirra. „Innleiðing nýrra lyfja hefur verið í lágmarki sem hefur leitt til aukins þrýstings á upptöku lyfja sem flest hafa verið samþykkt á Norðurlöndunum,“ segir þar jafnframt og sagt að útlit sé fyrir að halli á þeim lið fjárlaga verði af þessum sökum um 600 milljónir króna.

„Sú litla aukning sem reiknilíkan fjármálaráðuneytisins gefur sér á milli ára nær engan veginn utan um þá þörf sem er til staðar.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.