Sérnám í lyflækningum fær vottun

12.08.2016

Óhætt er að óska heilbrigðisyfirvöldum og Landspítalanum til hamingju með fréttir af mikilvægri vottun sérnáms í lyflækninum hér á landi. Á vef velferðarráðuneytisins segir að Konunglega breska lyflæknafélagið (Royal College of Physicians í Bretlandi) hafi vottað sérnám í lyflækningum á Íslandi., en þessi áfangi er liður í eflingu lyflækningasviðs Landspítala sem ráðist var í árið 2013 þar sem framhaldsnám lækna var meðal annars sett í forgang. Frétt ráðuneytisins í heild sinni fer hér á eftir:

Haustið 2013 var kynnt formlega sameiginleg áætlun lyflækna á Landspítala, yfirstjórnar spítalans og heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að styrkja lyflækningasvið Landspítala. Lyflækningasviðið var á þeim tíma í erfiðri stöðu og var ástandið það alvarlegt að nær engir námslæknar fengust til starfa í lyflækningum. Í áætlun um uppbyggingu lyflækningasviðsins var framhaldsnámið sett í forgang, lagðir voru sérstakir fjármunir og mannafli til verksins, og framhaldsnám í lyflækningum á Landspítala endurskipulagt.

Á síðastliðnu ári setti heilbrigðisráðherra nýja reglugerð er varðar sérnám í lækningum. Þar eru gerðar mun meiri kröfur til sérnáms en áður. Sérstök nefnd metur hæfi heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun til að annast sérnám. Sérstaklega er tekið fram að leita skuli alþjóðlegrar ráðgjafar og að skipulagi sérnáms skuli þannig háttað að alþjóðlegum gæðaviðmiðum sé mætt.

Við endurskipulagningu á sérnámi í lyflækningum var ákveðið að leita til Royal College of Physicians í Bretlandi um ráðgjöf og samstarf. Sú stofnun er ein sú virtasta í heimi á sínu sviði. Samstarfið felur meðal annars í sér að Íslendingar fá aðgang að námskröfum þeirra og rafrænu skráningarkerfi. Skrifleg próf eru nú haldin hér á landi en verkleg próf í Bretlandi. Standist námslæknar þessar kröfur munu þeir fá nafnbótina MRCP (Member of the Royal College of Physicians) sem er alþjóðlega viðurkennd nafnbót sem eykur enn frekar möguleika íslenskra lækna til sérfræðimenntunar við virtar erlendar stofnanir.

Dagana 6.–9. júní 2016 kom sendinefnd Joint Royal Colleges of Physicians Training Board (JRCPTB) í Bretlandi til að taka út fyrri hluta sérnámsins í lyflækningum (Core Medical Training). Jafnframt fylgdust þeir með að fyrsta árlega stöðumat námslækna færi rétt fram.

Niðurstaða JRCPTB er nú komin um vottun sérnámsins. Í umsögn þeirra er sérstaklega vikið að því hve mikil vinna hefur verið lögð í endurskipulagningu sérnámsins og að á tiltölulega stuttum tíma hafi tekist að þróa sérnámið þannig að vottun hafi náðst.

Sjúkrahúsið á Akureyri er í samvinnu við Landspítala um framhaldsnámið og hafa því námslæknar tækifæri til að sinna námi sínu á báðum sjúkrahúsunum. Boðið er upp á fyrri hluta sérnáms á Íslandi sem taka mun þrjú ár, en frekara sérnám verður erlendis.

Aðrar sérgreinar lækninga hafa nú nýtt sér þá grunnvinnu sem lyflækningar hafa unnið við að endurskipuleggja sérnám sitt á Íslandi til að uppfylla skilyrði áðurnefndrar reglugerðar um sérnám lækna.

Einn af takmarkandi þáttum íslenskrar heilbrigðisþjónustu, ef borið er saman við Vesturlönd, er að ekki er unnt að bjóða upp á fullt sérnám í lækningum hér á landi, meðal annars vegna fámennis. Á hinn bóginn hefur það oft verið talinn styrkur læknisþjónustu á Íslandi að sérfræðilæknar hafa hlotið menntun og þjálfun erlendis, á mörgum af fremstu háskólasjúkrahúsum í heimi. Nú hefur verið lagður grunnur að því að sérgreinar lækninga bjóði upp á fyrri hluta sérnáms á Íslandi. Því gætu námslæknar séð hag sinn í því að ljúka kandídatsári á Íslandi og stunda svo formlegt og vottað fyrrihluta sérnám á Íslandi í þrjú ár, áður en haldið er til frekara sérnáms erlendis.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.