„Sjónin er dýrmæt en stjórnviskan skrítin“

05.09.2014

Kjartan segir: „Mér hefur virst almennt viðurkennt meðal allra leiðandi afla, stjórnmálaflokka og sérfróðra jafnt sem almúga, að hafa skuli að leiðarljósi í heilbrigðiskerfi og einkanlega varðandi aldraða, að allir geti sem best bjargast á eigin vegum. Samt er það svo, að ekki verður betur séð en á þessu sé ótrúlegur misbrestur í framkvæmdinni,“ segir Kjartan og vitnar til greinar Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra, í sama blaði laugardaginn 16. ágúst, „þar sem hann studdi rökum að heilbrigðiskerfið væri að lotum komið og nefndi mörg dæmi um alvarlegar brotalamir máli sínu til stuðnings. Í næsta tölublaði, á mánudegi, færði forstjóri Landspítalans fram andmæli við sumu og rakti fyrirhuguð tækjakaup og lagfæringar sem mundu bæta úr ýmsu sem Styrmir hafði nefnt. Einu lét forstjórinn ósvarað. Það er það sem mér dvelst við. Ekki bara af því að hann sleppti að taka á því, heldur vegna þess að það svíður svo í augum, jafnframt því að leiðréttingin, úrbótin, er einföldust og augljósust.“

Augnablik!

Í grein Styrmis sem Kjartan vitnar til kemur fram að á sjöunda hundrað manna hér á landi fái lyfjameðferð til að verjast blindu vegna hrörnunar í augnbotnum, en sé hins vegar ekki gefinn kostur á nýjustu lyfjunum sem í boði séu, auk þess sem ekki sé heldur aðstaða til að veita lyfjameðferð með þeirri tíðni sem æskilegast væri. Styrmir spyr í grein sinni hvort almenningur geti sætt sig við þessa stöðu. „Augnablik!“ segir Kjartan og spyr hvort menn séu svo uppteknir af trésmíðum og múrverki framkvæmda og pöntunarstöðu tækjakaupa að lyfjakaupin fyrirfarist og bendir í því sambandi á að lyfjakostnaður var undir áætlun [á fyrri helmingi ársins].

Lyfjakostnaður undir áætlun

Kjartan vitnar til frétta að undanförnu um meintar framúrkeyrslur ríkisstofnana sem fulltrúar í fjárlaganefnd þingsins hafa tjáð sig um og segir: „Sumt hið digurbarkalegasta í yfirlýsingum át sjálft sig í vanáætlunum nefndarinnar. Þannig reyndist heilbrigðisgeirinn í heild sinni illa vanáætlaður og átti það einkum við um Sjúkratryggingarnar. Komst forstjóri þeirra frá hildinni með fána við hún. Allt gott um það. Hitt er vafamál hvort telja skuli honum til ágætis að lyfjakostnaður var undir áætlun. Þessi sami liður og ræður því að ekki er að fá þau lyf við augnsjúkdómi, sem fá má í grannlöndum og Styrmir nefndi.“

Sjónlaus maður ræður illa eigin vegum

Að lokum segir Kjartan: „Sjónlaus maður ræður illa eigin vegum. Blindur maður verður að njóta aðstoðar. Hver sá sem nýtur lyfjameðferðar til að halda sjón sinni heldur valdi yfir eigin lífi og er áfram virkur þátttakandi í samfélaginu. Aldrei má það gerast að fyrir nískusakir séu menn eða konur dæmd til að sitja í myrkri, ósjálfbjarga, þegar lausnin er aðeins handan pennastriks. Það er vond stjórnviska sem dæmir fólk til ósjálfbjargar.“

Skortur á gegnsæi

Að mati Frumtaka eru sjónarmið Kjartans Jóhannssonar athygli verð. Að mati samtakanna er nauðynlegt að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) endurskoði afstöðu sína þegar kemur að samþykki stofnunarinnar til greiðsluþátttöku í ákveðnum lyfjum. Einnig vantar nokkuð upp á gegnsæi í ákvarðantöku SÍ þegar kemur að greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði, en fyrir liggur að Sjúkratryggingar reisa sífellt hærri girðingar, ef svo má að orði komast, þegar kemur að samþykki fyrir greiðsluþátttöku. Eitt er að horfa til þess hvort lyf hafi verið samþykkt á Norðurlöndunum, en að gera sífellt oftar kröfu um að nýtt lyf hafi hlotið viðurkenningubreskra yfirvalda er erfitt að búa við.

Íslendingar mun lengur á eldri lyfjum

Það er mikið vafamál að mati Frumtaka að bæta Bretlandi við í þessu sambandi, til viðbótar við Norðurlöndin, enda eigum við miklu minni samleið með Bretlandi í heilbrigðismálum heldur en norrænum frændþjóðum okkar. Staðreyndin er sú að lyf sem hlotið hafa samþykki á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi fást mögulega ekki hér á landi fyrr en þau hafa einnig hlotið samþykki í Bretlandi. Það kaldhæðnislega er að sá tími er sífellt að lengjast á sama tíma og boðið er upp á ýmiskonar leiðir fyrir ný lyf í notkun á breskum sjúkrahúsum löngu áður en formlegt opinbert leyfi til notkunar liggur þar fyrir. Með öðrum orðum er það farið að gerast sífellt oftar að heimild til notkunar á nýju lyfi á Íslandi kemur síðust, að nýtt lyf er tekið í notkun í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð – og Bretlandi – áður en íslenskum sjúklingum stendur hið sama til boða. 

Old Medicine

Æ oftar gerist það að heimild til notkunar á nýju lyfi fæst síðast á Íslandi

samanborið við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð. Og nú er það jafnvel

farið að gerast að Bretar fá heimildina löngu á undan Íslendingum.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.