Skref í rétta átt

16.12.2017

Í nýframlögðu frumvarpi til fjárlaga næsta árs eru útgjöld vegna lyfjakaupa aukin um tæplega 4,1 milljarð króna frá fyrra ári. Þar af eru tæpir 3,4 milljarðar vegna útgjalda á þessu ári sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fyrri fjárlögum. Raunaukning til málaflokksins vegna nýrra S-merktra lyfja nemur því 700 milljónum króna á árinu 2018.

„Það er sannarlega fagnaðarefni að sjá hærra framlag til málaflokksins en við höfum átt að venjast undanfarin ár,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Við höfum verið eftirbátar nágrannalanda okkar, til dæmis þegar kemur að aðgengi að nýjum krabbameinslyfjum.“

Líkt og Frumtök hafa bent á (sjá meðal annars HÉR) hefur mörg síðustu ár þurft að bregðast sérstaklega við í kjölfar framlagningar fjárlaga til að tryggja sjúklingum sem kostur er nýjustu lyf, því ekki hafði verið gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárlögunum. Til slíkra ráða var gripið á árinu sem nú er að líða. „Og með auknu framlagi nú er verið að taka á uppsöfnuðum halla þessa árs,“ segir Jakob.

Ánægjulegt er að með þessu fjárlagafrumvarpi sé sannarlega verið að bregðast við þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin ár með því að ríflega fjórum milljörðum er bætt við málaflokkinn, og er það ánægjulegt.

„Ekki einungis er verið að taka á uppsafnaða vandanum, heldur virðist ljóst að ríkisstjórnin ætlar að standa við þau orð að styrkja heilbrigðiskerfið og þar er aðgengi að nýjum lyfjum lykilatriði.“ Um leið segir Jakob ljóst að miðað við uppsafnaðan vanda þessa árs, sé vandséð að 700 milljóna viðbótarframlag nægi. „En með þessu frumvarpi er samt, að því mér virðist, verið að taka tillit til þess sem við höfum verið að segja, að fjárlögin hafi ekki verið í takti við raunveruleikann.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.