Skref sem styrkja umgjörð lyfjamála

19.03.2018

Í fréttum hefur verið fjallað um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að færa fjárhagslega ábyrgð og umsýslu vegna S-merktra og leyfisskyldra lyfja frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) til Landspítala (LSH).

LSH hefur verið falið að hefja undirbúning að yfirfærslunni í samráði við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisstofnanir.

„Frumtök fagna hverju því skrefi sem tekið er til að bæta umgjörð lyfjamála hér á landi og vilja leggjast á árar með stjórnvöldum um að hér verði staðið að þeim málum með sem bestum hætti,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

„Líkast til er þarna um að ræða framhald langþráðra umbóta sem lagt hefur verið upp með, svo sem með auknum fjárheimildum til innleiðingar nýrra lyfja á þessu og síðasta ári þar sem eytt var uppsöfnuðum halla vegna vanáætlunar á fjárlögum síðustu ára.“

Í umfjöllun Mbl.is um málið er vísað til fréttar á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að með breytingunni sé horft til þess að „fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á innleiðingu og notkun nýrra og dýrra lyfja í landinu fari betur saman.“

Ákvörðun ráðherra er sögð taka mið af þeim áherslum sem fram koma í þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2022, þar sem fram kemur að styrkja eigi ferli ákvarðanatöku um notkun leyfisskyldra lyfja og vinna að bættu fyrirkomulagi á umsjón og eftirliti með afgreiðslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja. Þannig að tryggt verði betur að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð með líkum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, einkum í Danmörku og Noregi.

„Mestu máli skiptir að hér höldum við áfram á þeirri vegferð að tryggja sjúklingum aðgang að þeim nýjustu og bestu lyfjum, en við höfum síðustu ár verið eftirbátur nágrannalanda okkar í þeim efnum. Fyrstu skrefin voru stigin með aukningu fjárheimilda og fagnaðarefni að nú sé haldið áfram með því að efla faglega umgjörð ákvarðanatökunnar,“ segir Jakob Falur.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.