Sóknarfæri eftir samdrátt

02.12.2016

Ísland er um margt í einstakri stöðu þegar horft er til tækifæra tengdum rannsóknum á sviði heilbrigðisvísinda. Til marks um þessa stöðu er ný rannsókn sem nýlega var hleypt af stokkunum á skimun fyrir forstigi mergæxla, en öllum Íslendingum fæddum 1975 og fyrr, hefur verið boðið að taka þátt í henni.

Rannsóknin er umfangsmikil og kostnaðarsöm, líkt og gjarnan er um heilbrigðisrannsóknir. Svarti svanurinn (e. Black Swan), sem eru alþjóðasamtök um mergæxlisrannsóknir, styrkja rannsóknina um 300 milljónir króna og fyrirtækið Binding Site í Bretlandi skimar allar blóðprufurnar héðan með tilheyrandi kostnaði, sem ætlaður er á bilinu 400 til 500 milljónir króna. (Fólk skráir sig til þátttöku á vef Blóðskimunar.)

Í frétt RÚV af rannsókninni í lok september var haft eftir Sigurði Yngva Kristinssyni, sérfræðingi í blóðsjúkdómum sem fyrir rannsókninni fer, að Ísland væri frábær staður til að rannsaka og fyrirbyggja sjúkdóma, þjóðin sé mátulega stór, jákvæð gagnvart rannsóknum og framarlega í því að veita rafræn samþykki sem auðveldi allt rannsóknarferlið. Hér eru allir innviðir til staðar og landið af hagkvæmri stærð til margvíslegra rannsókna.

Markmið rannsóknar Sigurðar Yngva er að meta hvort ávinningur sé af því að skima fyrir forstigi mergæxlis, til að geta meðhöndlað sjúkdóminn snemma og mögulega vinna alfarið á sjúkdómnum.

„Ég held að það sé engin spurning um það við ættum að gera fleiri svona rannsóknir eins og hefur verið gert hér á landi af öðrum aðilum undanfarin ár. það er gríðarlega gott fyrir þjóðfélagið,“ sagði Sigurður Yngvi í viðtalinu við fréttastofu RÚV.

TÆKIFÆRIN

Á vef EFPIA (evrópusamtaka fyrirtækja í lyfjageira) kemur fram að lyfjaiðnaðurinn hafi verið það svið sem varð fyrir hvað mestum áhrifum af aðhaldsaðgerðum Evrópuríkja þegar kom að því að draga úr opinberum útgjöldum eftir hrun. Og að framleiðendur hafi þurft að laga sig að nýjum markaðsaðstæðum. Lyfjaframleiðendur og einstök lönd vinna hins vegar að því nú að finna nýtt jafnvægi þar sem þjóðum eru tryggð ný lyf á sem hagkvæmustu verði um leið og ekki er þrengt svo að framleiðendum lyfjanna að þeir fái ekki sinnt hlutverki sínu.

Framleiðslu og þróun nýrra lyfja fylgir nefnilega mikill kostnaður um leið og öllum viðskiptum með lyf fylgir mikil opinber stýring og reglur sem geta verið ólíkar eftir löndum. Leið nýs lyfs frá hugmynd að veruleika er afskaplega grýtt, þar sem kemur við sögu strangt ferli rannsókna og þróunar sem lyfjafyrirtækin standa undir. Á vef EFPIA kemur fram að jafnvel geti tekið 12 til 13 ár áður en lyf kemst á markað. Við þetta bætist svo að ekki nema brot af þeim tilraunum sem farið er af stað með verða á endanum að nothæfu lyfi. Að jafnaði eru ekki nema eitt eða tvö af hverjum 10 þúsund efnum sem framleidd eru á rannsóknarstofum sem standast þær kröfur sem gerðar eru í þróunarferlinu og verða á endanum að lyfjum á markaði.

Á þessu er skilningur og þótt á stundum fari hátt umræða um að verð nýrra lyfja sé hátt, þá skilja þeir sem setja sig inn í málin að fyrirtækin sem framleiða lyfin þurfa, á þeim tíma sem þeim er úthlutaður einkaréttur á sölu þeirra lyfja sem á endanum verða til, að geta fengið tekjur sem standa undir kostnaði við framleiðslu og þróun lyfsins og um leið kostnaði við tilraunir sem aldrei náðu að verða lyf.

Jafnframt er á því aukinn skilningur að þótt kosta þurfi einhverju til vegna lyfjakaupa þá geti rétt notkun lyfja líka falið í sér sparnað með því að með þeirra hjálp halda fleiri heilsu og þurfa ekki á annarri heilbrigðisþjónustu að halda.

Hér á landi eru þær aðstæður til staðar að hægt ætti að vera að laða hingað framleiðendur á ólíkum stigum framleiðsluferlis nýrra lyfja. Hér er nú þegar til staðar vísir að þekkingarklasa í lyfjaiðnaði, heilbrigðiskerfið er öflugt og menntunarstig hátt. Við það bætast séríslenskir möguleikar í rannsóknar- og þróunarstarfi. Og nú kann að vera lag að auka hlut Íslands á þessum markaði eftir því sem fleiri lönd rétta úr kútnum og víðar næst jafnvægi í efnahagsbúskap þjóða.

EFTIR NOKKRU ER AÐ SLÆGJAST

Ljóst er að eftir nokkru er að slægjast takist að laða hingað starfsemi sem tengist rannsóknum og þróun í lyfjaiðnaði, en það er sá geiri sem mest fjárfestir í slíkri starfsemi. Sem hlutfall af nettósölu ver  lyfja- og líftækniiðnaður 14,4% í rannsóknir og þróun, samkvæmt gögnum EFPIA. Í Evrópu nam fjárfesting í rannsóknum og þróun í lyfjageira í Evrópu 31.500 milljónir evra eða sem svarar ríflega 3.795 milljörðum króna. Í Bandaríkjunum fór 47.051 milljón til rannsókna og þróunar, eða tæplega 5.328 milljarðar króna.

Þá kemur fram í tölum EFPIA að í Evrópu hafi á síðasta ári starfað um 725 þúsund manns við rannsóknarstörf í lyfjaiðnaði, en afleidd störf séu þrisvar til fjórum sinnum fleiri.

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins 17. nóvember síðastliðinn kom fram að fjárframlög sem koma erlendis frá vegi sífellt þyngra í rannsókna- og nýsköpunarstarfi sem unnið er hér á landi. Haft er eftir Arnljóti Bjarga Bergssyni, sviðsstjóra innleiðingar og áhrifa hjá Matís, að erlent fjármagn standi undir um fjórðungi af rannsókna- og nýsköpunarstarfi sem hér sé unnið. Þá er vitnað til talna Hagstofunnar um að á síðasta ári hafi öll útgjöld, bæði fyrirtækja og opinberra stofnana, til rannsókna og þróunarstarfs numið 48,5 milljörðum króna.

Vitnað er til þess að Vísinda- og tækniráð hafi markað þá stefnu að hlutfall rannsókna og þróunar nemi um 3% af vergri landsframleiðslu hér á landi. Enn sé langt í land að það markmið náist þótt vöxtur hafi verið mikill. Haft er eftir Arnljóti að auka þurfi framlög til þessara mála um 17,9 milljarða á ári til að ná þremur prósentunum.

Erlendur stuðningur við mergæxlisrannsókn Sigurðar Yngva Kristinssonar nemur 7-8 hundruð milljónum króna, en nánari upplýsingar um rannsóknina er að finna hér í frétt Landspítalans og svo á vef rannsóknarinnar, www.blodskimun.is

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.