Tækifæri í lyfjarannsóknum

01.06.2017

Á tyllidögum og í aðdraganda kosninga tala stjórnmálamenn gjarnan um mikilvægi háskóla- og vísindasamfélagsins og um gildi rannsókna og þróunar. Sú umræða er nauðsynleg til að auka skilning á mikilvægi þess að ýta undir og efla frumkvöðlastarfsemi og almennt rannsóknar- og þróunarstarf. Í opinberri umræðu er gjarnan talað um jarðhita, sjávarútveg og ferðaþjónustu þegar nýsköpun er annars vegar, en undarlega lítið og sjaldan er rætt um heilbrigðisvísindi og heilbrigðisþjónustu í þessu samhengi.

Staðreyndin er sú, að fyrir lítið samfélag sem okkar eru gríðarleg tækifæri fólgin í rannsóknar- og þróunarumhverfi tengdu heilbrigðisvísindum, ekki síst á svið lyfjaþróunar. Lyfjaþróun og lyfjarannsóknir eru bornar uppi af stórum alþjóðlegum fyrirtækjum, sem setja hærra hlutfall af sinni í veltu í rannsóknar- og þróunarstarfsemi en þekkist í nokkuri annari atvinnugrein, eða að meðaltali um 19% af veltu.

Lyfjafyrirtækin hafa í gegnum tíðina stundað rannsóknir hér á landi, enda allar aðstæður eins og best verður á kosið. Íslenskt heilbrigðiskerfi er gott, aðgengi að sérfræðingum er gott og  samfélagið er smátt. Því þarf ekki að koma á óvart að á undanförnum árum hafa mörg lyfjafyrirtæki kosið að koma með rannsóknir sínar hingað til lands. Sumar þessara rannsókna eru vel þekktar og hafa fengið athygli í opinberri umfjöllun, líkt og meðferð gegn lifrarbólgu C og nýleg rannsóknar sem lítur að því að kanna mögulegan ávinning þess að skima fyrir forstigi mergæxlis, svo tvö dæmi af mörgum séu nefnd.

Ívilnanir í skattkerfinu?

Dæmin til viðbótar við þessi tvö eru mörg, en gætu verið svo miklu fleiri. Lyfjarannsóknir og -þróun velta stjarnfræðilegum upphæðum á heimsvísu og eftir miklu að slægjast ef við sem samfélag, með samstilltu átaki, gætum náð örlítið stærri sneið af þessari köku hingað heim en verið hefur undanfarin ár. Við sjáum sem betur fer dæmi um rannsóknir á þessu sviði, en eins og vikið er að hér að ofan er áhugi stjórnmálamanna á þessu sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar einhverra hluta vegna ekki jafn ljós og þegar kemur að öðrum atvinnugreinum. Samt er hér um að ræða þá atvinnugrein sem veitir hvað mestum fjármunum til nýsköpunar og þróunar. 

Íslenskt heilbrigðiskerfi hefur þegar mikinn hag af því að taka þátt í rannsóknarstarfi sem þessu og frábær dæmi til um lyfjameðferðir á lokastigi rannsókna og þróunar sem heilbrigðiskerfið fær aðgang að, samfélaginu að kostnaðarlausu. Með ýmsu móti mætti gera margt til að laða hingað heim mun fleiri rannsóknir á þessu sviði. Skattalegar ívilnanir er nokkuð sem gjarnan mætti skoða þegar kemur að rannsóknum á sviði heilbrigðisvísinda, líkt og t.d. þekkist í kvikmyndaiðnaðinum. Þá mætti einnig fara yfir hvernig má einfalda regluverk og ákvarðanatöku.

Við skulum hafa í huga að lyfjarannsóknir eru í eðli sínu flóknar og kostnaðarsamar. Frumlyf kemur upphaflega á markað sem nýjung, sem betri lausn við einhverjum tilteknum sjúkdómi eða kvilla en áður hefur þekkst eða sem alveg ný lausn við áður ólæknanlegum sjúkdómi. Frumlyfið er sett á markað eftir áralanga, jafnvel áratuga rannsókna- og þróunarvinnu. Nýtt frumlyf boðar því betri meðferð og öruggari virkni en áður hefur þekkst. Frumlyf er því ný uppfinning, ný lausn vísinda- og hátækniþróunar. Sem slík fær uppfinningin markaðsvernd í formi einkaleyfis í ákveðin tíma. Einkaleyfið er aðferð okkar sem samfélags til að greiða fyrir þann rannsóknar- og þróunarkostnað sem liggur til grundvallar. Síðan er eðlilegur framgangsmáti að þegar einkaleyfið fellur, þá fellur verðið, enda rannsóknarvinnan sem slík þá að fullu fjármögnuð.

Í hnotskurn má því segja að rannsóknir og þróun á sviði lyfjafræðinnar hafi á undanförnum áratugum aukið lífslíkur okkar svo um munar. Almenningur í Evrópu lifir lengur í dag en ella, að miklu leyti vegna framþróunar á sviði lyfjafræðinnar. Sú framþróun gæti að miklu meira leiti en við þekkjum í dag farið fram hér á landi, ef við berum gæfu til að gera umhverfið hér á landi meira aðlaðandi en raun beru vitni fyrir rannsókna- og þróunarstarf á þessu sviði.

______

Grein þessi birtis fyrst í Frumkvöðlum, fylgiblaði Viðskiptablaðsins, 1. júní 2017.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.