Tilefni er til ríflegrar aukningar

20.02.2017

Stjórnvöld hafa brugðist við ábendingum um alvarlega vanáætluð fjárframlög til lyfjamála á fjárlögum 2017 og ætla að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Frá þessu er greint á vef velferðarráðuneytisins.

Ítrekað hefur verið bent á að í óefni stefndi (svo sem hér og hér) og ljóst orðið að fjárveitingar ársins kæmu í veg fyrir að hér yrðu innleidd ný lyf á árinu.

„Sérstakt fagnaðarefni er að heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsmálaráðherra ætli að setjast yfir það saman að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Þar með er tekið undir þann málflutning okkar að fjárlagaliðurinn sé í raun ekki í samræmi við þann raunveruleika sem blasir við í heilbrigðiskerfinu,“ segir Jakob Falar Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.

„Fullt tilefni er til ríflegrar aukningar enda höfum við um árabil verið eftirbátar nágrannalanda okkar þegar að því kemur að taka í notkun ný lyf.“

Fram kemur í frétt og samantekt Frumtaka að af 25 nýjum krabbameinslyfjum sem Evrópska lyfjastofnunin hafi veitt markaðslyfi frá 2013 og fram á vordaga 2016 hafi aðeins átta verið tekin í notkun hér á landi á meðan Norðmenn hafi tekið 24 í notkun.

Á vef velferðarráðuneytisins var í dag greint frá því að ríkisstjórnin hafi fyrir helgi samþykkt á fundi sínum tillögu um að tryggja aukið fjármagn til lyfjamála til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári. Heilbrigðisráðherra hafi á fundi með formanni lyfjagreiðslunefndar, forstjóra Landspítala og fulltrúa Sjúkratrygginga Íslands 19. janúar síðastliðinn verið upplýstur um hve lyfjamálum væri þröngur stakkur sniðinn í fjárlögum.

„Í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar kemur fram að miðað við fjárheimildir þessa árs vanti töluverða fjármuni til lyfjamála m.a. varðandi innleiðingu nýrra lyfja. Á grundvelli þessa samþykkti ríkisstjórnin að fela fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra að tryggja aukið fé til málaflokksins og verður verkefni þeirra m.a. að leggja mat á fjárþörfina og umfang vandans,“ segir á vef ráðuneytisins.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.