Upplýst verður um greiðslur lyfjaframleiðenda til heilbrigðisstarfsfólks og -stofnana

27.06.2014

Um næstu áramót taka gildi viðbætur við siðareglur lyfjafyrirtækja í Evrópu sem gera ráð fyrir að upplýst verður um tilteknar greiðslur vegna samstarfs lyfjaframleiðenda við heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðisstofnanir. Hér á landi verða þessar upplýsingar birtar í ársskýrslum aðildarfyrirtækja Frumtaka, fyrst fyrir árið 2015 á árinu 2016.

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið út reglur um eflingu góðra stjórnunarhátta í lyfjaiðnaðinum sem allir hagsmunaaðilar samþykktu árið 2013. Reglurnar gera ráð fyrir að upplýsingar um tilteknar greiðslur verði gerðar opinberar. Samtök evrópskra lyfjaframleiðenda, EFPIA, og þar með Frumtök hér á landi, styðja reglurnar og stíga nú skrefið til fulls með þessum reglum sem kveða á um opinbera birtingu tiltekinna upplýsinga og greiðslna. Þær greiðslur sem reglurnar ná til eru t.d. styrkir til heilbrigðisstofnana, ráðgjafagreiðslur fyrir fyrirlestra, ferða- og dvalarkostnaður og skráningargjöld á ráðstefnur. Þessar upplýsingar verða jafnframt birtar hér á heimasíðu Frumtaka.

Allt uppi á borðum

Samstarf heilbrigðisstarfsfólks og lyfjafyrirtækja hefur haft jákvæð áhrif á þróun meðferða og lyfja. Þessir aðilar taka iðulega höndum saman við rannsóknir og fræðslu, til hagsbóta fyrir sjúklinga og er ekki gert ráð fyrir að nein breyting verði þar með tilkomu nýju reglnanna. Með innleiðingu þeirra leitast lyfjafyrirtækin við að koma til móts við kröfu um aukið gegnsæi í stjórnarháttum og skýra samstarf hagsmunaaðila betur gagnvart almenningi til að draga úr mögulegri tortryggni. Að mati Frumtaka á almenningur að geta treyst því að samstarf lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana hafi ekki áhrif á klínískar ákvarðanir og að heilbrigðisstarfsfólk ráðleggi, veiti eða kaupi viðeigandi meðferð og þjónustu sem byggist eingöngu á klínískum niðurstöðum og reynslu.

Markmiðið er að efla samstarf lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks með því að gera það gegnsærra fyrir sjúklinga og aðra þá sem hagsmuna eiga að gæta og tryggja að þessi samskipti séu á þeim faglega grunni sem sjúklingar, stjórnvöld og aðrir hagsmunaaðilar ætlast til. Við hlökkum til að vinna áfram að því að auka gæði meðferða, rannsókna og almennrar umönnunar sjúklinga.

Nánari upplýsingar:

 pd

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.