Útgjöld til lyfja þau sömu síðan 2009

15.05.2017

Lyfjakostnaður hins opinbera, þar með talið S-lyfja, hefur hækkað um 0,1 prósent frá árinu 2009 á meðan útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist um 44 prósent. Að mati Félags atvinnurekenda sýnir það glögglega að lyfjakaup eru ekki að sliga heilbrigðiskerfið eins og menn vilja láta í veðri vaka á stundum.

Félagið hefur sent Alþingi umsögn um lyfjastefnu til ársins 2022 sem nú er í meðferð velferðarnefndar þingsins. „Þegar fjallað er um ný og dýr lyf má jafnframt ekki gleyma því að um er að ræða ný og betri lyf,“ segir í umsögn félagsins.

Á síðasta ári var kostnaður hins opinbera við lyfjakaup um 15 og hálfur milljarður en útgjöld til heilbrigðismála voru samtals um 170 milljarðar. Því er lyfjakostnaður undir tíund útgjalda til málaflokksins í heild sinni.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur lofað auknu fjármagni til lyfjakaupa en dæmi eru um að krabbameinslæknar geti ekki veitt sjúklingum sínum þau krabbameinslyf sem læknarnir telja heppilegust í meðferð sjúklinga.

„Útgjöld hins opinbera til lyfja sem hlutfall af heilbrigðisútgjöldum almennt, hafa lækkað á undanförnum árum. Samt erum við langt á eftir nágrannalöndunum varðandi aðgengi að nýjum lyfjum. Mánuðir eru nú liðnir frá því að auknu fjármagni var lofað í málaflokkinn og enn hefur ekkert gerst. Skýr lyfjastefna er ágæt, en skýrum orðum verða auðvitað að fylgja skýrar efndir,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda.

____

Upphaflega frétt á Vísi.is, 11. maí 2017.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.