Verjum minna til lyfjakaupa en aðrar þjóðir

17.08.2017

„Þó svo að í opinberri umræðu sé gjarnan vísað til lyfjakostnaðar sem veigamikils þáttar í kostnaði við heilbrigðiskerfið þá sýna tölurnar að staðreyndin er önnur. Í íslensku heilbrigðiskerfi er hlutur lyfja raunar mun minni en almennt er í Evrópu og í raun með því lægsta sem við sjáum í samanburði við önnur lönd,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka.

Aukinn kostnaður vegna heilbrigðismála er alla jafna til kominn vegna hækkandi meðalaldurs þjóða og aukinnar tíðni langvinnra (krónískra) sjúkdóma. Gögn sem tekin hafa verið saman af samtökum lyfjaframleiðenda í Evrópu (EFPIA) sýna að vöxtur heilbrigðisútgjalda í Evrópu síðustu ár verður ekki rakinn til aukningar útgjalda vegna lyfjakaupa. Meðal landa Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafa útgjöld vegna lyfjakaupa að jafnaði dregist saman um tvö prósent ári frá árinu 2010. Í Evrópu eru lyf fimmtungur af heildarútgjöldum til heilbrigðismála.

„Hér á landi er hlutfallið svo langtum lægra og er nú komið vel niður fyrir tíu prósent af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Hæst var hlutfallið skömmu eftir hrun, nálgaðist þá 13 prósent, en hefur lækkað hratt undanfarin ár og er nú á milli sjö og átta prósent af heilbrigðisútgjöldunum,“ segir Jakob Falur. „Við höfum því aldrei verið nálægt þessu 20 prósenta meðaltalshlutfalli í Evrópu.“

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er sjónum oft á tíðum beint að útgjöldum vegna lyfjakaupa þegar kemur að aðhaldsaðgerðum í heilbrigðiskerfinu, bæði hér heima og erlendis, fremur en að horft sé til heildrænnar greiningar á útgjöldum til heilbrigðismála, til þess að auka skilning á heildarkostnaði við sjúkdóma og að leita uppi og draga úr óskilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Sú nýsköpun sem á sér stað í lyfjaiðnaði og getur af sér nýjustu lyf, er svo aftur grunnurinn að samheita- og líftæknilyfjum morgundagsins. Þetta er þróun sem getið hefur af sér ódýrari valkosti í baráttu við sjúkdóma á borð við hjartakvilla og þunglyndi. Og þetta er þróun sem í framtíðinni nær svo líka til sífellt fjölbreyttari og markvissari meðferðum við krabbameini, liðagigt og fleiri sjúkdómum.

Hér að neðan má sjá mynd sem sýnir kostnað vegna lyfja sem hlutfall af útgjöldum til heilbrigðismála frá árinu 2004 til ársins í ár. Gráu súlurnar (vinstri ásinn) sýna krónutöluna og bláa línan hlutfall af heildarútgjöldum til málaflokksins (hægri ásinn).

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.