Verulegur samdráttur í rannsóknum í Danmörku

30.08.2010

Klínískum lyfjarannsóknum hefur fækkað verulega í Danmörku og hafa LIF, systursamtök Frumtaka þar í landi, af þessu miklar áhyggjur. Samkvæmt rannsókn sem unnin var af dönsku Lyfjastofnunninni hafa minnkandi rannsóknir í för með sér minnkandi samkeppnishæfi, hugvitsflótta og fækkun stöðugilda.

Eins og komið hefur fram undanfarið, og við höfum sagt frá hér á vefnum okkar, eru víða áhyggjur af minnkandi lyfjarannsóknum samfara aðgerðum til að knýja niður lyfjakostnað. Þannig var fjallað um málið á innlendum vettvangi í Fréttablaðinu nýverið, og við sögðum frá könnun Novartis í Evrópu sem sýndi óyggjandi fram á það að bein tengsl eru á milli strangra reglna á markaði varðandi lyfjaverð annarsvegar og lyfjaþróunar og rannsókna hinsvegar.

Á heimasíðu LIF segir að fjölda klínískra rannsókna hafi verulega farið minnkandi í Danmörku frá árinu 2007 þegar 369 rannsóknir fóru fram í landinu. Ári síðar voru þær 305, og árið 2009 höfðu þær enn minnkað um 12%, niður í 268.

Þetta veldur áhyggjum innan raða LIF. „Þetta er alls ekki góð þróun ef við viljum gera okkur vonir um að lyfja- og líftækniiðnaðurinn eigi áfram að vera drifkraftur í dönsku efnahagslífi. Við erum að missa stöðu okkar sem eitt forystulandanna á sviði klínískra rannsókna, og þar með missum við samkeppnisforskot,“ segir Jakob Bjerg Larsen, sérfræðingur hjá LIF.

Hann varar einnig við því að fækkun klínískra rannsókna í Danmörku hafi slæm áhrif fyrir heilbrigðiskerfið og sjúklinga:

„Þegar danskir læknar og spítalar gera rannsóknir, öðlast þeir þekkingu sem kemur sjúklingunum til góða. Þannig missum við verðmæta vitneskju, þegar við missum rannsóknir úr landi.“

Betri skilyrði til rannsókna eru nauðsynleg

Til að snúa þróuninni í rétta átt lýsir LIF eftir betra rannsóknaumhverfi í Danmörku. Það sé meðal annars nauðsynlegt að rannsóknir eflist hjá hinu opinbera. Ríkisspítalar, sem í samvinnu við lyfjafyrirtækin gætu unnið lyfjarannsóknir fljótar, á skilvirkari hátt og á hærra gæðastigi, séu grundvöllurinn fyrir því að lyfja- og líftækniiðnaðurinn sjái það sem aðlaðandi kost að gera lyfjarannsóknir sínar í Danmörku.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.