Viðbót sem fór í uppsafnaðan vanda

28.09.2016

Í síðustu viku var staðfest að fjárheimildir skortir til að samþykkja umsóknir fyrir ný lyf og þar með staðfest að hér þarf að standa betur að málum eigi Ísland að standast samanburð við hin Norðurlöndin.

Fram kom í frétt hér á vef Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda, að sú staða væri enn eitt árið komin upp að lyfjagreiðslunefnd hafnaði umsóknum um ný sjúkrahúslyf vegna fyrirséðrar framúr­keyrslu á heimildum fjárlaga. Fréttablaðið fjallaði um málið á forsíðu þriðjudaginn 20. september og ræddi við Guðrúnu Gylfadóttur, formann lyfjagreiðslunefndar, sem staðfesti að þessi staða væri komin upp. Hún benti um leið á að nefndin hafi á árinu samþykkt mikinn fjölda nýrra lyfja og gerði það í samvinnu við Land­spítalann til að tryggja rétta forgangsröðun.

Þá sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, í hádegisfréttum Bylgjunnar sama dag, að staðan væri alvarleg, því fyrst og fremst væru það krabbameins- og gigtarlyf sem væru undir. „Fyrst og fremst snýst þetta um fjárveitingar og svo þarf að sýna þann metnað að við ætlum að fylgja öðrum Norðurlöndum varðandi lyf við alvarlegum sjúkdómum sem annaðhvort geta bjargað lífi fólks eða bætt lífsgæði þeirra til mikilla muna,“ sagði hún. Alvarlegt væri að vandinn hafi verið fyrirséður án þess að brugðist hafi verið tímanlega við.

Síðdegis birtist á vef lyfjagreiðslunefndar frétt þar sem farið var yfir stöðuna á árinu, og hvernig brugðist var við í byrjun árs þegar fyrir lá að ekki væri svig­rúm innan fjárheimilda til innleiðingar nýrra lyfja. Heilbrigðisráðherra flutti þá 100 milljónir króna til verkefnisins af safnlið ráðuneytisins, auk þess sem ríkisstjórnin samþykkti að flytja aukið fé til mála­flokksins með það að markmiði að innleið lyf sem sett höfðu verið á forgangslista af hálfu Land­spítal­ans.

Fram kom í frétt Frumtaka að þrátt fyrir þessa viðbót stefndi í níu prósenta framúrkeyrslu vegna sjúkrahúslyfja í árslok, samkvæmt áætlunum Sjúkratrygginga Íslands.

„Enda þótt ekki sé unnt á þessu ári að taka í notkun öll ný lyf sem óskað er eftir, er það mat lyfja­greiðslunefndar að mikilvægir áfangar hafi náðst á árinu og að staðan hér á landi sé um flest sam­bærileg við það sem gerist á Norðurlöndunum,“ sagði í fréttinni á vef lyfjagreiðslunefndar.

Í fréttum RÚV á þriðjudag sagði María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, það hins vegar hafa þónokkur áhrif að lyf sem ný eru á markaði fáist ekki innleidd það sem eftir lifði árs. „Þetta hefur þau áhrif að það munu þá væntanlega ekki verða innleidd nein ný lyf af þessum dýru og vandmeðförnu lyfjum sem þessi fjárveiting er ætluð til,“ sagði hún. Sjúklingar hefði í einhverjum tilfellum ekki aðgang að þeim lyfjum sem sjúkrahúsið vildi helst bjóða þeim upp á. Þessi staða hefði komið upp mörg undanfarin ár, að fjárveiting til kaupa á S-merktum lyfjum dygði ekki til að mæta þeim þörfum sem Landspítalinn setti fram fyrir hönd sjúklinga.

Í viðtali við Í bítið á Bylgjunni á miðvikudag sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra frétt Fréttablaðsins frá því deginum áður vera ranga og benti á hvernig hálf­um milljarður króna til viðbótar hafi verið settur til kaupa á nýjum lyfjum á þessu ári. Staðfest hafi verið að kaup á sjúkrahúslyfjum hafi verið stóraukin til að tryggja sjúklingum bestu mögulegu með­ferð og landið væri fyllilega samkeppnishæft við nágrannalöndin í þessum málaflokki.

Daginn eftir, fimmtudaginn 22. september, birti Morgunblaðið viðtal við Guðrúnu Hrund Sigurðar­dóttur, sem ekki fær nýlegt krabbameinslyf sem forðað gæti henni frá erfiðri lyfjameðferð næstu árin vegna þess að fjárheimildir til kaupa á nýjum sjúkrahúslyfjum væru búnar. Fyrirsögn fréttarinnar var: „Óhagstætt að þurfa lyf seinni hluta árs“.

Guðrún fór yfir baráttu sína við brjóstakrabbamein sem gengið hafi vel. „Síðan vildi læknirinn minn að ég færi í kjölfar lyfjameðferðarinnar á lyf í töflu­formi sem er nýtt og hefur gefið góðan árangur á Norðurlöndum. Því var hafnað af lyfjagreiðslunefnd vegna þess að það rúmast ekki innan fjárlaga,“ sagði hún. Höfnunin hafi borist í júlí, en fram hafi komið í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni, sem fékkst í ágúst, að lyfið hafi ekki rúmast innan fjárlaga þessa árs. „Ef ég hefði verið greind aðeins fyrr og hefði þurft lyfið fyrr á árinu, til dæmis febrúarmars, hefði ég fengið afgreiðslu. Peningarnir eru bara búnir. Það er mjög óhagstætt að þurfa lyf seinni part ársins.“

Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins 24. september vék Bjarni Benediktsson að stöðu heilbrigðis­kerfisins og verkefna sem halda þyrfti áfram með. „Við þurfum líka að auka aðgengi að nýjum lyfjum,“ sagði hann þar. „Við höfum gert mikið á því sviðinu en þurfum að halda áfram.“  

„Orð fjármálaráðherra á flokksráðsþinginu benda til þess að honum sé ljóst að pottur sé brotinn í fyrirkomulagi fjármögnunar ríkisins á kaupum nýrra lyfja, þar sem áætlanagerð vegna útgjalda getur verið vandasöm og miklar sveiflur milli ára og innan einstakra lyfjaflokka,“ segir Jakob Falur Garðars­son, framkvæmdastjóri Frumtaka. „Greinilegt er að viðbótarfjármagn það sem ríkisstjórnin samþykkti að veita til málaflokksins í byrjun árs kom til móts við uppsafnaðan vanda, því hér var í raun lokað á ný sjúkrahúslyf um árabil sökum fjárskorts.“

Viðbótin í byrjun árs segir Jakob Falur að miklu leyti virðast hafa farið í að fjármagna notkun sem var umfram áætlanir sjúkratrygginga. „Og úr öllu þessu má lesa að annað hvort þarf að stórbæta áætl­anagerð hins opinbera, eða búa til kerfi sem tekið getur á og jafnað út tímabundnar sveiflur, þannig að skortur á fjárheimildum komi ekki í veg fyrir að sjúklingum á Íslandi standi til boða bestu kostir í meðferð sem völ er á. Ef við viljum tryggja fjármögnun nýrra lyfjameðferða til jafns við það sem tíðk­ast á hinum Norðurlöndunum þá þarf að gera breytingar sem tryggja það.“

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.