Viðbót sem nemur á öðrum milljarði

28.04.2017

„Orð ráðherra eru fagnaðarefni enda hefur aðgerða verið beðið og ófremdarástand á meðan ekki eru fjárheimildir til að taka í notkun ný lyf,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra lýsti því yfir í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi að á árinu stæði til að veita vel á öðrum milljarði króna til kaupa á nýjum lyfjum. Lyfjagreiðslunefnd komi til með að taka ákvörðun um innleiðingu nýrra lyfja á næstu dögum.

Fjallað hefur verið í fjölmiðlum um óánægju bæði lækna, sjúklinga og aðstandenda þeirra, með að beiðnum um notkun á ákveðnum lyfjum hafi verið hafnað hér á landi, meðan sömu lyf séu notuð með góðum árangri í nágrannalöndunum.

„Við höfum ítrekað bent á að hér séum við eftirbátar þeirra landa sem við miðum okkur við þegar kemur að innleiðingu á nýjum lyfjum. Skortur á fjárveitingum til málaflokksins hefur verið árviss síðustu ár og skýrir það uppsafnaða óánægju og óþreyju að hluta á meðan beðið er eftir aðgerðum,“ bætir Jakob við, en ríkisstjórnin samþykkti í febrúar aðgerðir til að tryggja fjármuni til innleiðingar á nýjum lyfjum.

„Um leið er ánægjulegt að sjá hlutfallslega aukningu á fjármunum til lyfjakaupa í nýrri ríkisfjármálaáætlun, þótt sú aukning mætti gjarnan vera hraðari í ljósi þess hve lengi hefur hallað á í þessum efnum.“

Í frétt RÚV segir heilbrigðisráðherra að verið sé að „fínpússa niðurstöðuna“ hvað varðar viðbótarfjárveitingu í samvinnu við fjármálaráðuneytið. „Vonandi stenst að það sjái fyrir endann á þeirri vinnu,“ segir Jakob Falur. 

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.