Vinnubrögð heilbrigðisráðuneytis áhyggjuefni

03.09.2010

Eitt síðasta embættisverk Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra var að skipa vinnuhóp sem rannsaka á misnotkun á ADHD lyfjum. Að sögn Sjúkratrygginga Íslands hefur notkun slíkra lyfja, sem meðal annars eru notuð við athyglisbresti og ofvirkni, aukist um helming á milli áranna 2006 og 2009.

Mest hefur aukningin orðið á meðal fullorðinna, 20 ára og eldri. Viðbrögð ráðherrans voru sem áður segir að skipa vinnuhóp sem endurskipuleggja á alla meðferð lyfjaflokksins.

Í frétt frá 2. september á vef heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að verkefnið sé að herða eftirlit með ávísunum lækna á methýlphenídat sem finna má í Ritalini og Ritalin Uno. Þannig skal endurskoða vinnureglur um ávísanir á methýlphenídat, þar sem þröngar skorður eru settar við ávísunum til einstaklinga yfir 20 ára aldri, skoða hvort hægt sé að taka aftur upp svokölluð „gul kort“, sem áður voru forsenda þess að einstaklingar fengju ávísað amfetamínskyldum lyfjum og að skylt verði að tilkynna til landlæknis um einstaklinga sem taldir eru misnota methýlphenídat.

Ráðuneytið tekur fram í fréttinni að aðgerðunum sé ekki ætlað að skerða aðgang barna og ungmenna að lyfjunum heldur muni þeim fyrst og fremst vera beint að mögulegri mis- og ofnotkun fullorðinna. 

Ósanngjörn umræða

Samkvæmt fréttinni hefur heilbrigðisráðuneytið nú sett á fót hóp sem á að fara yfir og endurskipuleggja vinnureglur um ávísanir á metýlfenídatlyf. Vonandi mun sú umræða sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum án nokkurrar faglegrar skírskotunar, litlum tölulegum upplýsingum og fjölmörgum rangfærslum leggjast af. Sú umræða gerir lítið annað en að ala á fordómum gagnvart ADHD og lyfjameðferð. Meira hefur verið gert af því fjalla um að metýlfenídatlyf séu of- og misnotuð en að þessi lyf hjálpi fjölda fólks, bæði börnum og fullorðnum. Frumtök fagna því ef of- og misnotkun metýlfenídatlyfja er skoðuð á faglegan hátt, þ.e. að farið verði vel yfir allar þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um meinta of- og misnotkun og ef þær upplýsingar eru af skornum skammti, að þeirra verði aflað. Skoða þarf í hverju misnotkunin felst, hversu víðtæk hún er og hvaða lyf í flokki metýlfenídatlyfja er verið að misnota. Sama á við um ofnotkun. Hversu mikil er ofnotkunin ef miðað við tíðni ADHD? Skoða þarf hvernig greiningu á ADHD er háttað og ganga þarf úr skugga um sjúklingar sem fá ávísað metýlfenídatlyfjum hafi fengið greiningu. Vonandi verður þetta fyrsta verk hóps heilbrigðisráðherra, áður en ráðist verður í einhverjar aðgerðir. Einnig ætti hópurinn að leita til fagaðila sem þekkja til rannsókna á ADHD, lyfjanna og hafa klíníska reynslu.

Að sjálfsögðu ætti í framhaldinu að skoða mögulega misnotkun á öllum lyfjum og ekki einbeita sér eingöngu að einum lyfjaflokki.

Til að leiðrétta algengan misskilning skal taka fram að oft er talað um Ritalin eða „Rítalín“ sem einhvers konar samheiti yfir lyfjaflokk eða mörg lyf. Hið rétta er að Ritalin er sérnafn á lyfi sem inniheldur virka efnið metýlfenídat. Ritalin Uno og Concerta eru einnig sérlyf sem innihalda metýlfenídat. Lyfin innihalda öll sama virka efni en þó er munur á lyfjunum meðal annars hvað varðar styrkleika og lyfjaform. Réttara er því þegar verið er að tala um þennan flokk lyfja, að tala um lyf sem innihalda metýlfenídat.

Nú hefur nýr heilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, tekið við heilbrigðisráðuneytinu og skora Frumtök á ráðherrann að beita sér fyrir því að fagleg vinnubrögð séu í hávegum höfð og að samráð sé haft við fagfólk þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í stjórnsýslunni svo forðast megi ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli ónægra upplýsinga.

Um Frumtök

Frumtök eru samtök frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. Tilgangur Frumtaka er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta þess að sameiginlegir hagsmunir framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu og almennings fari saman. Frumtök vilja með málflutningi sínum stuðla að framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins, að rannsóknum og þróun lyfja hér á landi og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda á Íslandi. 

Hafa samband

Frumtök
Húsi atvinnulífsins
Borgartúni 35
105 Reykjavík

Sími: 588 8955

frumtok@frumtok.is

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann


© 2015 Frumtök.